Enski boltinn

Rúnar Alex líklega að fá fyrsta tækifærið hjá Arsenal í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Alex Runarsson á æfingu hjá Arsenal fyrir Evrópudeildarleikinn á móti Dundalk.
Rúnar Alex Runarsson á æfingu hjá Arsenal fyrir Evrópudeildarleikinn á móti Dundalk. Getty/David Price

Allt bendir til þess að íslenski landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson spili sinn fyrsta leik með Arsenal í kvöld þegar liðið fær írska félagið Dundalk í heimsókn.

Arsenal hefur verið með sviðsljósið á íslenska markvörðinn á samfélagsmiðlum sínum í aðdraganda leiksins á Emirates leikvanginum í kvöld og það er ekki hægt að lesa annað en að Bernd Leno fái hvíld í leik kvöldsins.

Arsenal keypti Rúnar Alex Rúnarsson frá franska félaginu Dijon í lok september en hann hefur ekki enn fengið að spila með liðinu.

Rúnar Alex Rúnarsson er varamarkvörður Bernd Leno og hefur setið á varamannabekknum í alls sjö leikjum Arsenal á leiktíðinni þar af á móti Rapid Vín i fyrsta Evrópudeildarleik liðsins.

Bernd Leno hefur spilað alla þessa leiki og hefur alls haldið hreinu í þremur leikjum og fengið á sig átta mörk í nóu leikjum með Arsenal í öllum keppnum á tímabilinu.

Spili Rúnar Alex í kvöld þá verður það fyrsti leikur Íslendings í búningi Arsenal síðan að Ólafur Ingi Skúlason lék sinn eina leik með Arsenal 2. desember 2003.

Ólafur Ingi kom þá inn á em varamaður fyrir Justin Hoyte á 55. mínútu á móti Wolves í 32 liða úrslitum enska deildabikarsins.

Það far að fara mun aftar til að finna síðasta byrjunarliðsleik Íslendings með aðalliði Arsenal en Sigurður Jónsson var síðasta í byrjunarliði Arsenal í deildarleik á móti Norwich City 6. október 1990.

Arsenal vann leikinn 2-0 með tveimur mörkum frá Paul Davis og vann síðan enska meistaratitilinn um vorið. Sigurður átti stórgóðan leik en síðan tóku bakmeiðslin sig upp sem áttu eftir að enda tíma hans hjá Arsenal.

Leikur Arsenal og Dundalk verður í beinni á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 19.50.

Þrír aðrir leikir verða sýndir beint í kvöld. Leikur AEK og Leicester er á Stöð 2 Sport 2 frá klukkan 17.45 og á sama tíma verður sýndur leikur Antwerpen og Tottenham á Stöð 2 Sport 4.

Á sama tíma og Arsenal leikurinn er sýndur verður leikur AZ Alkmaar og Rijeka sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 en þar fær vonandi Albert Guðmundsson að spreyta sig með AZ Alkmaar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×