Erlent

Trump gerði grín að grímunotkun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Telma Tómasson skrifa
Breski stjórnmálamaðurinn Nigel Farage kom fram á kosningafundi með Trump í Arizona í gær.
Breski stjórnmálamaðurinn Nigel Farage kom fram á kosningafundi með Trump í Arizona í gær. Getty/Chip Somodevilla

Keppinautarnir í forsetakosningunum í Bandaríkjunum reyna hvað þeir geta til að ná hylli kjósenda nú þegar þeir eru á síðustu metrunum aðeins nokkrum dögum fyrir kjördag sem er næstkomandi þriðjudag.

Kórónuveirufaraldurinn hefur verið fyrirferðarmikill á kosningafundum. Í gærkvöldi hvatti Donald Trump Bandaríkjaforseti ríkin til að forðast hörðustu aðgerðir eins og útgöngubann á meðan Joe Biden frambjóðandi demókrata sagði að ekki væri hægt að slökkva á faraldrinum með einu handtaki.

Þeim fjölgar dag frá degi sem greinast með kórónuveiruna í Bandaríkjunum. Þá fjölgar dauðsföllum einnig.

Á kosningafundi í heimabæ sínum Wilmingotn í Delaware í gær sagði Biden að viðbrögð Trumps við faraldrinum væru móðgun við fórnarlömb veirunnar.

Sjálfur hét Biden því á fundinum að láta vísindi ráða för þegar kæmi að ákvörðunum vegna faraldursins.

„Jafnvel þótt ég vinni þá mun það kosta mikla vinnu að binda enda á faraldurinn. Ég lofa þessu: Við munum byrja á því að gera réttu hlutina á degi eitt,“ sagði Biden.

Á meðan gerði forsetinn grín að samkomum Demókrata þar sem fólki er skylt að nota grímur. Fæstir nota grímur á kosningafundum Trumps og óttast Anthony Fauci , helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, að fundirnir geti orðið til að breiða út smit enn frekar og þannig leitt til veldisvaxtar faraldursins.

Trump, sem hélt kosningafund í Goodyear í Arizona í gær, varaði við því að ef Biden næði kjöri þýddi það útgöngubann og efnahagskrísu. Biden hefur ekki viljað útiloka að setja á útgöngubann vegna kórónuveirunnar ef hann verður kosinn forseti.

„Ef þú kýst Joe Biden þá þýðir það að engin börn fara í skólann, það verða engar útskriftir, engin brúðkaup, engin þakkargjörðahátíð, engin jól, enginn þjóðhátíðardagur. Að öðru leyti mun líf þetta verða dásamlegt. Þú mátt ekki hitta neinn en það er allt í lagi,“ sagði Trump meðal annars á fundinum í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.