Erlent

Stilla saman strengi sína gegn Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Esper, Mike Pompeo, Rajnath Singh og Subrahmanyam Jaishankar ræddu við blaðamenn í dag.
Mark Esper, Mike Pompeo, Rajnath Singh og Subrahmanyam Jaishankar ræddu við blaðamenn í dag. AP/Altaf Qadri

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin og Indland þurfi að vinna saman til að sporna gegn þeirri „ógn“ sem stafi af Kína. Þetta sagði ráðherrann í Indlandi þar sem hann og Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, funduðu með Subrahmanyam Jaishankar, utanríkisráðherra Indlands, og Rajnath Singh, varnarmálaráðherra, á árlegum fundi.

Eftir fundinn var tilkynnt að skrifað hefði verið undir samkomulag um að ríkin deildu upplýsingum úr gervihnöttum og kortaupplýsingum, samkvæmt frétt Reuters.

„Það er margt að gerast á meðan lýðræðisríkin okkar stilla saman strengi sína til að verja borgara okkar og hinn frjálsa heim,“ sagði Pompeo eftir fundinn. Hann sagði að leiðtogar ríkjanna tveggja og borgarar sæu sífellt betur að Kommúnistaflokkur Kína væri ekki vinur lýðræðis, laga, gagnsæis og annarra gilda lýðræðissamfélaga.

Esper sagði að samkomulagið myndi auka samstarf herja Indlands og Bandaríkjanna

Samband Bandaríkjanna og Kína hefur beðið hnekki á undanförnum mánuðum og það sama má segja um samband Indlands og Kína.

Þá stefna Bandaríkin að því að selja Indverjum orrustuþotur og dróna.

Pompeo hefur varið miklu púðri í að stappa stálinu í bandamenn Bandaríkjanna í Austur-Asíu og Kyrrahafinu og reyna að draga úr auknum áhrifum Kína en mikil spenna er á milli ríkjanna.

Þá hefur komið til átaka á milli indverskra og kínverskra hermanna á landamærum ríkjanna. Tuttugu indverskir hermenn féllu í átökum í sumar og hefur mikil spenna verið á landamærunum.

Pompeo og Esper vottuðu þeim hermönnum virðingu sína í ferðinni, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Fyrr í þessum mánuði buðu Indverjar Áströlum að taka þátt í árlegum flotaæfingum með Bandaríkjunum og Japan. Yfirvöld í Kína hafa gagnrýnt þessar æfingar og segja þær ógna friði á svæðinu.

Wang Wenbin, talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína, sagði blaðamönnum í dag að Pompeo ætti að láta af kaldastríðshugarfari sínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×