Enski boltinn

Klopp hrósar Rashford í hástert: Er stoltur af honum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rashford leiddi Man Utd til sigurs í París í vikunni.
Rashford leiddi Man Utd til sigurs í París í vikunni. vísir/Getty

Enski landsliðsframherjinn Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, hefur látið til sín taka og barist harkalega fyrir börn sem alast upp við fátækt í Englandi.

Rashford ólst sjálfur upp við fátækt í Wythenshawe hverfinu í Manchester borg en er í dag ein skærasta stjarna Manchester United með öllum þeim fríðindum sem því fylgja. Þessi 22 ára gamli kappi hefur barist fyrir því að börn sem minna mega sín búi ekki við sult og gagnrýnt bresk stjórnvöld harðlega.

Rashford barst hrós úr óvæntri átt þegar Jurgen Klopp, stjóri erkifjendanna í Liverpool, gerði baráttu Rashford að umtalsefni á blaðamannafundi í gær.

„Það sem Marcus hefur gert er algjörlega ótrúlegt og mjög fallegt. Þrátt fyrir allan þennan ríg á milli félaganna og þess háttar þá eru allir fótboltamenn og allar manneskjur sameinaðar í svona baráttu,“ segir Klopp.

„Það er mjög fallegt að sjá á svona tímum þegar fólkið sem stjórnar þessum málum er augljóslega að bregðast og sýnir enga leiðtogahæfni að strákur sem ólst upp við erfiðar aðstæður, en hefur augljóslega stórkostlega hæfileika, gleymir ekki hvaðan hann kemur.“

„Það er að vissu leyti synd að það hann skuli þurfa að gera það en það er frábært engu að síður. Ég vona að móðir hans sé stolt af honum. Ég þekki hann ekki en er samt stoltur af honum. Hann á allt hrósið skilið en ég er viss um að hann er ekki að sækjast eftir því að fá hrós fyrir þetta framtak,“ segir Klopp.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.