Erlent

Pútín segir tæp­lega 5.000 hafa dáið í Na­gorno-Kara­bakh

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að nærri fimm þúsund manns hafi látist í átökum Aserbaídsjan og Armeníu um héraðið Nagorno-Karabakh. Sú tala er mun hærri en ríkin tvö hafa í ljós látið.

Pútín sagði þetta á fundi sem var sjónvarpaður í dag og sagðist hann ræða við bæði ríki oft á dag og hefur haldið því til haga að hann muni ekki taka afstöðu með öðru hvoru ríkinu í deilum þeirra um héraðið. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins um málið.

Þá sagði hann að yfirvöld í Moskvu séu ósammála tyrkneskum yfirvöldum – sem styðja Aserbaídsjan í deilunum – í afstöðu þeirra til deilnanna.

Hann hefur einnig kallað eftir því að Bandaríkin aðstoði við að tryggja frið á svæðinu.

Bæði Armenía og Aserbaídsjan hafa sakað hvort annað um að hafa brotið vopnahlé í Nagorno-Karabakh sem sett var á vegna mannúðarástæðna.

Segja mun færri hafa látist

Átök milli ríkjanna í héraðinu brutust út í september. Héraðið hefur lengi verið alþjóðlega samþykkt sem hluti af Aserbaídsjan en íbúar þess eru að mestum hlut Armenar, og snúast deilurnar að miklu leyti um þjóðerni íbúa þess. Átök á svæðinu hafa ekki verið meiri í rúm 25 ár eða frá því að sex ára stríði um landssvæðið lauk árið 1994 með vopnahléi.

Rússland er í hernaðarbandalagi við Armeníu og er rússnesk herstöð staðsett þar í landi. Rússland á hins vegar ríka sögu og mikil tengsl við Aserbaídsjan en bæði ríkin voru hluti af Sovétríkjunum fyrir fall þeirra.

„Dauðsföllin eru mun fleiri hjá báðum hliðum, meira en 2.000 hjá hvoru ríki,“ sagði Pútín á fundinum í dag og bætti hann við að dauðsföllin nálguðust fimm þúsund.

Talan er mun hærri en þær sem Aserbaídsjan og Armenía hafa gefið út, og segja nýjustu dánartölur að dauðsföll séu færri en þúsund. Yfirvöld í Nagorno-Karabakh segja að 874 af hermönnum þeirra hafi fallið og 37 almennir borgarar frá því þann 27. september. Aserbaídsjan hefur gefið út að 61 aserskir borgarar hafi dáið en hafa ekki greint frá fjölda dáinna hermanna.


Tengdar fréttir

Fluttu hjálpargögn en ekki vopn til Jerevan

Fjölmiðlar í Aserbaídsjan segja að vopn hafi verið flutt frá Íslandi til Armeníu um helgina og hafa vísað til fragtflugvélar Icelandair sem flogið var frá Keflavík til Jerevan, höfuðborgar Armeníu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×