Erlent

Vopnahlé brotið nokkrum mínútum eftir að það tók gildi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Maður stendur við rústir húss nágranna síns sem er gjörsamlega ónýtt eftir sprengjuárás sem Aserar eru sakaðir um að bera ábyrgð á í bænum Stepanakert í héraðinu sem deilan snýst um, Nagorno-Karabakh.
Maður stendur við rústir húss nágranna síns sem er gjörsamlega ónýtt eftir sprengjuárás sem Aserar eru sakaðir um að bera ábyrgð á í bænum Stepanakert í héraðinu sem deilan snýst um, Nagorno-Karabakh. Mynd/AP

Aserar og Armenar saka hvern annan um brot á vopnahléi sem átti að taka gildi á miðnætti í gærkvöldi. Undanfarnar vikur hefur mikil harka færst í leikinn í deilu ríkjanna tveggja um héraðið Nagorno-Karabakh sem á sér langa forsögu.

Talskona armenska varnarmálaráðuneytisins segir Aserbaídsjan hafa brotið vopnahléið aðeins fjórum mínútum eftir að það tók gildi. Aserarhafa sömuleiðis sagt Armena hafa sjálfa rofið vopnahléið aðeins tveimur mínútum eftir að það tók gildi.

Rússar hafa leitt viðræður um vopnahlé í þágu mannúðarsjónarmiða en líkt og áður segir virðist samningur sem undirritaður var um vopnahlé ekki hafa borið tilætlaðan árangur enda hafa vopnuð átök haldið áfram í dag.

Svæðið umdeilda, Nagorno-Karabakh, tilheyrir Aserbaídsjan samkvæmt alþjóðalögum en íbúar þess eru í miklum meirihluta af armenskum uppruna og svæðinu er stjórnað af Armenum.

Til þessa hafa nokkur hundruð fallið í átökunum frá því aukin harka færðist í deiluna þann 27. september. Baráttan um svæðið hefur staðið yfir um áratuga skeið en átökin nú eru þau mannskæðustu síðan samið var um vopnahlé árið 1994 en þá höfðu um 30 þúsund látið lífið í blóðugum átökum sem þá höfðu geysað í um sex ár.

Deilan er nokkuð flókin en Tyrkir styðja Asera í baráttunni og hafa hótað hernaðaríhlutun. Rússar eru aftur á móti með varnarsamning við Armena og hafa í því ljósi reynt að miðla málum sem til þessa hefur borið afar takmarkaðan árangur. Leiðtogar á vesturlöndum hafa jafnframt hvatt til stillingar á svæðinu en hafa takmörkuð ítök á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×