Erlent

Obama líkti Trump við brjálaðan frænda

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Obama á kosningafundinum í Pennsylvaníu í gær.
Obama á kosningafundinum í Pennsylvaníu í gær. Getty/Michael M. Santiago

Barack Obama fyrrverandi forseti Bandaríkjanna kom fram á kosningafundi í Pennsylvaníu í gær þar sem hann fór hörðum orðum um eftirmann sinn í Hvíta húsinu, Donald Trump. Obama líkti Trump við brjálaðan frænda og sagði hann aðstoða kynþáttahatara.

Á sama tíma var Trump með fjöldafund í Norður-Karólínu. Þar hæddist hann að forsetanum fyrrverandi og sagði hann hafa spáð rangt fyrir um úrslit kosninganna 2016.

Þá segja Repúblikanar að þátttaka Obama í baráttunni sé merki um óöryggi þeirra og að Joe Biden frambjóðandi Demókrata sé of heilsuveill til að taka þátt af fullum krafti. Því þurfi hann aðstoð Obama.

Í ræðu sinni á kosningafundinum í Pennsylvaníu gagnrýndi Obama viðbrögð Trumps við kórónuveirufaraldrinum. Hann sagði forsetann svo sannarlega ekki geta verndað þjóðina; hann gæti ekki einu sinni verndað sjálfan sig en eins og frægt er orðið smitaðist Trump af veirunni fyrr í haust.

Obama sagði að ef Biden myndi vinna þá yrði Bandaríkjaforseti ekki lengur einhver sem hótaði fólki fangelsisvist ef það styddi ekki forsetann.

„Þetta er ekki eðlileg hegðun hjá forseta,“ sagði Obama og bætti við að kjósendur myndu ekki sætta sig við svona hegðun frá einhverjum í fjölskyldunni sinni „[…] nema kannski frá brjáluðum frænda einhvers staðar.“

Mikill hiti er nú að færast í kosningabaráttuna enda eru aðeins þrettán dagar til kjördags. Samkvæmt könnunum á Trump á brattann að sækja og er Joe Biden mótframbjóðandi hans með gott forskot á landsvísu. Munurinn er þó miklu minni í þeim ríkjum sem talið er að gætu fallið á hvorn veginn sem er.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur aldrei verið eins lífleg og nú og þegar hafa 42 milljónir manna greitt atkvæði í kosningunum. Seinni kappræður þeirra Trumps og Bidens fara fram í nótt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.