Innlent

Segja að rétt hefði verið að snúa Júlíusi Geirmundssyni til hafnar fyrr

Samúel Karl Ólason skrifar
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ættingjar skipverja hafi verið ósáttir við að skipinu hafi ekki verið snúið til hafnar þegar fyrst fór að bera á veikindum. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri frystihússins, vildi ekki svara fyrirspurn fréttastofunnar um af hverju það hefði ekki verið gert í dag.
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ættingjar skipverja hafi verið ósáttir við að skipinu hafi ekki verið snúið til hafnar þegar fyrst fór að bera á veikindum. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri frystihússins, vildi ekki svara fyrirspurn fréttastofunnar um af hverju það hefði ekki verið gert í dag. Vísir/Hafþór

Kalla hefði átt Júlíus Geirmundsson til hafnar fyrr og segja alla áhöfn skipsins í skimun fyrir Covid-19, miðað við þá vitneskju sem nú liggur fyrir. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út frystitogarann. Nítján skipverjar af 25 greindust með Covid-19 í gær eftir þriggja vikna túr á sjó. Menn fóru að veikjast á fyrstu dögum túrsins.

Skipinu var siglt til hafnar á Ísafirði á sunnudaginn til að taka olíu og fóru áhafnarmeðlimir þá í sýnatöku. Ekki var beðið eftir niðurstöðum heldur siglt aftur á mið. Þegar í ljós kom að nítján væru með smit var siglt til baka og komið til hafnar á Ísafirði í hádeginu í gær.

Skipverjarnir fengu svo leyfi til að yfirgefa skipið í dag. Þá var komið í ljós að níu úr áhöfn skipsins höfðu jafnað sig af Covid-19 og voru með mótefni. Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera áfram í einangrun.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ættingjar skipverja hafi verið ósáttir við að skipinu hafi ekki verið snúið til hafnar þegar fyrst fór að bera á veikindum.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri frystihússins, vildi ekki svara fyrirspurn fréttastofunnar um af hverju það hefði ekki verið gert í dag.

Sjá einnig: Vill ekki svara hvers vegna skipinu var ekki snúið við

Í áðurnefndri yfirlýsingu segir þó að fyrirtækið vilji koma því á framfæri að fljótlega eftir að veikindin komu upp hafi verið haft samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ekki hafi þótt ástæða til að kalla skipið til hafnar.

Eftir að niðurstöður úr skimuninni lágu fyrir hafi skipinu verið snúið umsvifalaust til hafnar.

„Í ljósi þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar og setja alla áhöfnina í skimun,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að um 213 tonn af frystum afurðum séu í lestum skipsins og ekkert bendi til þess að Covid-19 geti borist með matvælum, samkvæmt Matvælastofnun og alþjóðlegra stofnana. Þá verður skipið sótthreinsað á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Nokkurra vikna slappleiki og 19 skipverjar með Covid-19

Nú um hádegisleytið tekur heilbrigðisstarfsfólk á Vestfjörðum á móti áhöfn frystiskipsins Júlíusar Geirmundssonar Ís 270 á Ísafirði en langflestir skipverjar eru smitaðir af Covid-19. Til greina kemur að opna tímabundið farsóttarhús á Vestfjörðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×