Innlent

Allir skipverjarnir nema einn yfirgefa togarann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skipverjarnir fóru í sýnatöku í gær. Niðurstöður úr henni bárust í hádeginu í dag.
Skipverjarnir fóru í sýnatöku í gær. Niðurstöður úr henni bárust í hádeginu í dag. Vísir/Hafþór

Skipverjarnir 25 á Júlíusi Geirmundssyni hafa fengið leyfi til að yfirgefa skipið og munu allir nema einn gera það í dag. Níu skipverjar hafa jafnað sig af kórónuveirunni og eru með mótefni en þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun áfram, samkvæmt niðurstöðum sýnatöku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða nú síðdegis. Júlíus Geirmundsson kom til hafnar á Ísafirði á sunnudag til að taka olíu. Skipverjar fóru þá í sýnatöku vegna mögulegs kórónuveirusmits. Ekki var beðið eftir niðurstöðum úr sýnatökunni heldur haldið aftur á haf út. Þegar í ljós kom að stór hluti hópsins væri með veiruna var siglt til baka og komið til hafnar á Ísafirði í hádegi í gær.

Skipverjarnir hafa dvalið í skipinu síðan. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ættingjum skipverja hafi ekki staðið á sama um þá ráðstöfun.

Umdæmislæknir sóttvarna hefur nú gefið leyfi fyrir því að skipverjarnir yfirgefi skipið en með skilyrðum, að því er segir í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. 

Niðurstöður sýnatöku frá í gær bárust í hádeginu og þar kom í ljós að níu skipverjar hafi jafnað sig á veikindunum, eru með mótefni og því frjálsir ferða sinna. Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun áfram. Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví.

Fimm skipverjanna fara í farsóttarhús í nágrenni Ísafjarðar sem sett verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum víða um land. Einn verður eftir um borð í skipinu.

„Vettvangsstjórn og aðgerðastjórn hefur verið virkjuð við uppsetningu farsóttahússins, flutning á fólki og annað sem tengist málinu. Samráð hefur verið haft við sóttvarnalækni, Sjúkratryggingar Íslands, Rauða kross Íslands og fleiri,“ segir í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf, sem gerir út Júlíus Geirmundsson, vildi ekki svara því í samtali við Vísi í dag hvers vegna ekki var farið í land þegar fór að bera á veikindum meðal skipverja.


Tengdar fréttir

Vill ekki svara hvers vegna skipinu var ekki snúið við

Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf, sem gerir út Júlíus Geirmundsson ÍS 270, vill ekki svara því hvers vegna ekki var farið í land þegar fór að bera á veikindum meðal skipverja.

Nokkurra vikna slappleiki og 19 skipverjar með Covid-19

Nú um hádegisleytið tekur heilbrigðisstarfsfólk á Vestfjörðum á móti áhöfn frystiskipsins Júlíusar Geirmundssonar Ís 270 á Ísafirði en langflestir skipverjar eru smitaðir af Covid-19. Til greina kemur að opna tímabundið farsóttarhús á Vestfjörðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×