KSÍ hefur gefið út leikjaniðurröðin fyrir nóvembermánuð en eins og flestir knattspyrnuáhugamenn vita hefur deildin verið á pásu vegna kórónuveirunnar.
Í gær gaf KSÍ það svo út að sambandið hugðist klára allar keppnir en það þarf að gera fyrir 1. desember. Því hafa Birkir Sveinsson, mótastjóri, og samstarfsfólk hans í mótanefndinni setið sveitt við að endurskipuleggja öll mótin í meistaraflokki.
Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 8. nóvember en henni lýkur svo 30. nóvember. Alla leikina má sjá á heimasíðu KSÍ. Flest liðin spila einn leik fyrir landsleikjahléið í nóvember en Stjarnan og KR tvo því þau mætast í frestuðum leik sín á milli.
Pepsi Max deild kvenna fer einnig aftur af stað þann 8. nóvember. Flest liðin klára sína leiki þann 15. nóvember en Fylkir og KR mætast í síðasta leik mótsins þann 18. nóvember. Þetta er frestaður leikur frá því fyrr í sumar er KR-liðið var í einum af þeim þremur sóttkví sem liðið þurfti í.
Keflavík og Grindavík geta spilað í Lengjudeild karla, þar sem þau eru utan höfuðborgarsvæðisins, og þau mætast þar af leiðandi í Keflavík 31. október í frestuðum leik. Hin liðin í Lengjudeildinni hefja svo leik 8. eða 9. nóvember og lokaumferðin fer svo fram 14. nóvember.
Í Lengjudeild kvenna er búið að skera úr hvaða lið fara upp og hvaða lið falla en lokaumferð deildarinnar fer fram 8. og 9. nóvember.