Innlent

110 smit rakin beint til líkams­ræktar­stöðva og annarra í­þrótta

Kristín Ólafsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Líkamsræktarstöðvar fengu að opna á ný í dag og bjóða upp á hópatíma. Tækjasalir eru þó enn lokaðir.
Líkamsræktarstöðvar fengu að opna á ný í dag og bjóða upp á hópatíma. Tækjasalir eru þó enn lokaðir. Vísir/Vilhelm

110 kórónuveirusmit hafa verið rakin beint til líkamsræktarstöðva og annarrar íþróttaiðkunar. Þar eru ekki meðtalin afleidd smit sem væntanlega hlaupa á hundruðum. Þetta kemur fram í svari almannavarna við fyrirspurn fréttastofu.

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um aðgerðir vegna kórónuveirunnar tók gildi í dag. Með henni fengu líkamsræktarstöðvar að opna á ný, innan ramma reglugerðarinnar, eftir að hafa verið gert að loka í byrjun mánaðar. Stöðvarnar mega halda úti hóptímum, að uppfylltum skilyrðum um sóttvarnir, tveggja metra reglu og fjöldatakmarkanir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna að sér þætti ekki hyggilegt að opna líkamsræktarstöðvar á ný í ljósi þess að þær væru „aðaluppspretta faraldursins“ sem nú gengur yfir.

Fram kom í svari almannavarna við fyrirspurn Vísis í síðustu viku að margir hefðu smitast af veirunni í tengslum við íþróttaiðkun. Þannig var stærsta hópsýking faraldursins rakin til Hnefaleikafélags Kópavogs, þar sem 55 greindust með veiruna. Hún dreifði sér svo til 180 annarra og kom af stað minnst fimm minni hópsýkingum, sem m.a. tengist skólum, líkamsrækt og skemmtistöðum.

Þá hefur tekist að rekja minnst tíu hópsýkingar sem telja 30-50 manns. Einhverjar þeirra tengjast líkamsrækt, að því er fram kom í svari almannavarna við fyrirspurn Vísis í síðustu viku.

Eins og staðan er í dag hefur tekist að rekja 110 smit beint til líkamsræktarstöðva og annarrar íþróttaiðkunar. Þar eru ekki meðtalin afleidd smit sem hlaupa væntanlega á hundruðum. Þegar kom fram í liðinni viku að á sjötta hundrað hefðu greinst með veiruna í þremur stærstu hópsýkingum landsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×