Erlent

Beraði sig fyrir vinnufélögum á fjarfundi

Kjartan Kjartansson skrifar
Vinnufélagar Jeffreys Toobin á New Yorker sáu meira af honum en þeir kærðu sig um á fjarfundi í síðustu viku.
Vinnufélagar Jeffreys Toobin á New Yorker sáu meira af honum en þeir kærðu sig um á fjarfundi í síðustu viku. AP/Evan Agostini/Invision

Bandaríska blaðið New Yorker hefur vikið Jeffrey Toobin, rithöfundi og greinahöfundi, frá störfum eftir að hann beraði sig fyrir framan vinnufélaga á fjarfundi í síðustu viku. Toobin hefur dregið sig í hlé frá störfum fyrir CNN-fréttastöðina þar sem hann hefur komið fram sem lögfræðilegur álitsgjafi.

Atvikið er sagt hafa átt sér stað á fjarfundi starfsmanna New Yorker og WNYC-útvarpsstöðvarinnar sem vinna saman að hlaðvarpi þegar þeir voru að undirbúa sig fyrir forsetakosningar í síðustu viku. 

Fundurinn fór fram í gegnum forritið Zoom en þegar hlé var gert á umræðunum er Toobin sagður hafa tekið annað myndsímtal þar sem hann átti í kynferðislegum samskiptum fyrir framan furðu lostna vinnufélaga sína. Vefsíðan Vice, sem sagði fyrst frá uppákomunni, hefur eftir fólki sem tók þátt í fundinum að það hafi séð Toobin leika við sjálfan sig.

„Ég hélt að ég hefði slökkt á Zoom-myndinni. Ég hélt að enginn í Zoom-símtalinu sæi mig,“ sagði Toobin í yfirlýsingu. Bað hann eiginkonu sína, fjölskyldu, vini og samstarfsmenn afsökunar á mistökunum, að því er segir í frétt New York Times.

New Yorker sagði að Toobin hefði verið vikið frá störfum á meðan atvikið væri til rannsóknar. CNN sagði að hann hefði sjálfur óskað eftir leyfi vegna „persónulegs máls“. Toobin, sem er sextugur, hefur skrifað bækur um lögfræðileg málefni, þar á meðal um rannsóknir á Donald Trump forseta og hæstarétt Bandaríkjanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.