Erlent

Ákæra rússneska hermenn fyrir skæðar tölvuárásir

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússarnir sex eru sagðir starfa fyrir GRU, leyniþjónstu herafla Rússlands.
Rússarnir sex eru sagðir starfa fyrir GRU, leyniþjónstu herafla Rússlands. AP/Andrew Harnik

Yfirvöld Bandaríkjanna hafa ákært sex Rússa sem starfa hjá leyniþjónustu Herafla Rússlands, GRU. Þeir eru ákærðir fyrir nokkrar alræmdar tölvuárásir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Meðal annars er um að ræða árás á dreifikerfi Úkraínu og að hafa gert tölvurárás á stjórnmálaflokk Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í aðdraganda forsetakosninganna 2017.

Þeir eru einnig sakaðir um að hafa dreift vírusnum NotPetya árið 2017. Sá vírus smitaði tölvur um allan heim og olli miklum skaða víða.

NotPetya virkaði þannig að hann smitaði tölvur og læsti þeim. Eigendur þeirra fengu eingöngu skilaboð um að borgar lausnargjald í Bitcoin til að opna tölvurnar aftur.

Bretar sökuðu Rússa um að hafa gert árásina en hún kom verulega niður á tölvukerfi sjúkrahúsa í landinu.

Ofan á það eru mennirnir sakaðir um að hafa gert tölvuárásir sem komu niður á rannsókn yfirvalda í Bretlandi á eitrun fyrrverandi njósnarans rússneska, Sergei Skripal, og dóttur hans.

Tilheyra umdeildri deild tölvuþrjóta

Samkvæmt AP fréttaveitunni tilheyra mennirnir sex sömu herdeild og þeir menn sem Bandaríkjamenn hafa þegar sakað um tölvuárásir og aðrar aðgerðir í tengslum við afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. Meðal annars er um að ræða tölvuárásina á tölvukerfi Landsnefndar Demókrataflokksins.

Mennirnir eru þó ekki ákærðir í tengslum við afskiptin.

Frá blaðamannafundi í Dómsmálráðuneyti Bandaríkjanna í dag.AP/Andrew Harnik

Minnst einn þeirra var ákærður árið 2018 í Rússarannsókn Robert Mueller, samkvæmt frétt Washington Post. Sá var sakaður um að reynt að brjótast inn í tölvukerfi tengd forsetakosningunum 2016.

Í yfirlýsingu frá Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er haft eftir helsta saksóknara landsins í tengslum við þjóðaröryggismál að ekkert ríki hafi vopnvætt tölvuárásir betur en Rússland og útsendarar ríkisins hafi valdið miklum skaða.

Í yfirlýsingunni er einnig haft eftir einum af yfirmönnum Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, að löggæslustofnunin hafi lengi varað við getu Rússa þegar komi að tölvuárásum. Þessar ákærur séu þó til marks um getu starfsmanna FBI til að fletta ofan af þeim.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.