Erlent

Nýr vírus herjar á heiminn

Samúel Karl Ólason skrifar
Skilaboðin sem fórnarlömb vírussins sjá.
Skilaboðin sem fórnarlömb vírussins sjá. Vísir/AFP
Fyrirtæki og stofnanir um heim allan hafa tilkynnt vírus sem heldur gögnum þeirra í gíslingu. Svo virðist sem að Úkraína og Rússland hafi orðið hvað verst úti, en ekki vitað hvaðan árásin hefur verið gerð. Smitist tölvur af vírusnum þarf að greiða 300 dali í Bitcoin til að opna þær aftur.

Yfirvöld í Bandaríkjunum biðja fórnarlömb þó um að greiða ekki lausnargjaldið og segja að ekki sé öruggt að tölvurnar verði opnaðar aftur.

Sérfræðingar, og þar á meðal Cert-Ís, segja vísbendingar um að vírusinn notist við sama öryggisgalla og WannaCry vírusinn sem fór um heiminn allan í maí. Hann virðist vera ný útfærsla af vírus sem nefnist Petya, samkvæmt frétt BBC. Þessi vírus hefur því fengið nafnið NotPetya.

Vírusinn er sagður innihalda kóða sem nefnist Eternal Blue. Þeim kóða var stolið af Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna og var einnig notaður í WannaCry vírusinn.

Sjá einnig: Varað við nýrri hrinu tölvuárása

Í skilaboðum sem birtast á skjáum tölva sem hafa smitast af vírusum er gefið upp heimilisfang svokallaðs bitcoin veskis og mun vera búið að setja tæplega níu þúsund dali í veskið. Því virðist sem að einhver fórnarlömb hafi brugðið á það ráð að greiða lausnargjaldið.

Sérfræðingur sem BBC ræddi við segir að mörg fyrirtæki hafi ekki lokað fyrir þá galla sem WannaCry vírusinn nýtti sér sökum þess hve hratt hann var stöðvaður.

Uppfært 07:30

Öryggisfyrirtækið Bleeping Computer hefur fundið leið til að „bólusetja“ tölvur gegn vírusnum. Það er hægt með tiltölulega einföldum hætti og hefur fyrirtækið birt leiðbeiningar á vef sínum.


Tengdar fréttir

Hakkarar reyna að endurræsa WannaCry

Ítrekuðum og þungum netárásum hefur verið beint gegn vefsvæði sem átti stóran þátt í því að stöðva útbreiðslu vírussins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×