Enski boltinn

Vilja að enska úr­vals­deildin skoði á­kvarðanir mynd­bands­dómara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hér má sjá tæklingu Pickford á Van Dijk sem leiddi til þess að sá síðarnefndi þurfti að yfirgefa leikvöllinn.
Hér má sjá tæklingu Pickford á Van Dijk sem leiddi til þess að sá síðarnefndi þurfti að yfirgefa leikvöllinn. Laurence Griffiths/Getty Images

Myndbandsdómgæsla í ensku úrvalsdeildinni [VAR] heldur áfram að valda knattspyrnufólki sem og stuðningsfólki miklum vonbrigðum. Englandsmeistarar Liverpool eru vægast sagt ósáttir með dómgæsluna í 2-2 jafntefli liðsins gegn Everton á Goodison Park í gær og hafa beðið ensku úrvalsdeildina um að skoða málið betur.

Markvörður Everton, Jordan Pickford, tæklaði hollenska miðvörðinn Virgil van Dijk illa innan teigs og þurfti sá hollenski að fara meiddur af velli. Pickford hlaut enga refsingu þar sem rangstaða var dæmd í aðdraganda sóknarinnar. Þetta var í upphafi leiks en það var svo undir lok leiksins sem Jordan Henderson hélt hann hefði tryggt Liverpool sigurinn.

Skoraði fyrirliðinn það sem virtist vera fullkomlega löglegt mark og staðan orðin 3-2 Liverpool í vil. Allt kom fyrir ekki og var olnbogi, eða hluti af honum, Sadio Mané fyrir innan í aðdraganda marksins og því rangstaða dæmd. Ekkert mark og lokatölur 2-2 á Goodison Park.

Liverpool hefur nú beðið forráðamenn úrvalsdeildarinnar um að skoða hvernig VAR var notað í leiknum. Sky Sports greinir frá.

Liverpool vill fá að vita af hverju atvikið þar sem Pickford fer á fleygiferð í fætur Van Dijk var ekki skoðað betur. Félagið vill einnig útskýringu á því hvernig Mané var rangstæður. Þá hefur verið sett spurningamerki við það hvenær myndbandið var stöðvað í sókninni þar olnboginn á Mané rataði í rangstöðu en um millimetraspursmál var að ræða.

Eftir leik ræddi Henderson við blaðamenn og taldi reglurnar beygðar að hentisemi dómara.

„Það verður að vera rangstaða með VAR, það er það sem allir vilja. Ég held að þeir beygi stundum línurnar, til að gera þetta að rangstöðu. Ég er ekki viss um hvernig þeir gera það en ég hef séð þá gera það áður.“

Talið er mögulegt að Van Dijk sé með slitið krossband í hné en Liverpool hefur ekkert gefið út um málið að svo stöddu. Það er ljóst að ef Van Dijk missir af því sem eftir lifir leiktíð þá er það meira högg fyrir Liverpool heldur en að tapa tveimur stigum í gær.


Tengdar fréttir

Thiago færði Klopp slæmar fréttir eftir leik

Thiago þurfti langa aðhlynningu á vellinum en var að lokum fær um að klára leikinn. Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, segir Thiago hafa fært sér slæmar fréttir eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×