Íslenski boltinn

Segja að leikmaður U-21 árs landsliðs Íslands hafi verið með veiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Coronavirus, Tem
getty/BSIP

Í frétt á heimasíðu norska úrvalsdeildarliðsins Strømsgodset kemur fram að tveir íslenskir leikmenn liðsins, Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson, séu komnir í sóttkví þar sem samherji þeirra í U-21 árs landsliði Íslands hafi greinst með kórónuveiruna.

Í fréttinni segir að Ari og Valdimar hafi farið í smitpróf er þeir voru með U-21 árs landsliðinu en það hafi reynst neikvætt. Þeir hafi svo tekið annað smitpróf við komuna til Noregs og það hafi einnig verið neikvætt.

Samkvæmt norskum sóttvarnareglum þurfa þeir samt að fara í tíu daga sóttkví og missa því af leik Strømsgodset og Start á sunnudaginn.

Ísland vann 0-2 sigur á Lúxemborg í undankeppni EM á þriðjudaginn. Ari og Valdimar voru báðir í byrjunarliði Íslendinga.

Ísland átti að mæta Ítalíu síðasta föstudag en leiknum var frestað vegna smita í leikmannahópi Ítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×