Erlent

Búist við hörðustu að­gerðunum í Liver­pool og ná­grenni

Telma Tómasson skrifar
Íbúar í Liverpool sjást hér á ferð í miðbænum með grímur en búist við verulega hertum aðgerðum í borginni vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Íbúar í Liverpool sjást hér á ferð í miðbænum með grímur en búist við verulega hertum aðgerðum í borginni vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Getty/Peter Byrne

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands mun í dag kynna hertar aðgerðir sem eiga að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Aðgerðirnar verða stigskiptar og staðbundnar í hlutfalli við fjölda smita á hverju svæði fyrir sig, en Johnson og ríkisstjórn hans eru með þessu reyna að koma í veg fyrir útgöngubann um gervallt Bretland til að verja efnahag landsins.

Viðræður hafa farið fram við borgar- og sveitarstjórnir undanfarnar vikur, en framkvæmdinni verður skipt í þrennt og er búist við að harðast verði tekið á málum í Liverpool og nágrenni eftir því sem fram kemur á fréttavef BBC.

Í Liverpool og héruðum í kring reyndust smitaðir vera um 600 á hverja 100 þúsund íbúa í lok fyrstu viku í október en til samanburðar var meðaltalið um 74 fyrir Bretland allt á sama tíma.

Gert er ráð fyrir að forsætisráðherrann kynni aðgerðirnar í dag í neyðarnefnd stjórnarinnar og kynni í framhaldinu þingheimi í hverju þær felast.

Borgarstjóri Liverpool er tilbúinn að vinna með stjórnvöldum en hefur óskað eftir skýrum rökstuðningi ef rétt reynist að gripið verði til hörðustu aðgerða þar.

Tíu til fimmtán þúsund smit hafa greinst á degi hverjum í Bretlandi en alls hafa 604 þúsund smit greinst í Bretlandi frá upphafi faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×