Erlent

Ítalir og Bretar reyna að komast hjá því að setja á útgöngubann

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/Jessica Taylor

Búist er við því að leiðtogar í Bretland og Ítalíu munu á morgun kynna til leiks aðgerðir til þess að stemma í stigu við aukningu á kórónuveirusmitum í löndunum tveimur. Leiðtogarnir eru sagðir vilja komast hjá því að setja á útgöngubann, sambærilegt við það sem gripið var til í fyrstu bylgju faraldursins sem lék íbúa þessara ríkja grátt.

Í Bretlandi er búist við að Boris Johnson forsætisráðherra muni kynna staðbundnar aðgerðir á þeim svæðum þar sem kórónuveirusmitum hefur fjölgað mikið að undanförnu. Á það einkum við um norðurhluta landsins en borgarstjóri Liverpool-borgar segir að ríkisstjórnin vilji grípa til mjög harðra aðgerða þar.

Reiknað er með á þeim svæðum þar sem flest smit hafa greinst að undanförnu verði börum og líkamsræktarstöðvum gert að loka. Í frétt Reuters segir að Johnson sé að reyna að komast hjá því að setja útgöngubann á um gervallt Bretland vegna ótta um að það muni vera afar slæmt fyrir efnahag ríkisins.

Tíu til fimmtán þúsund smit hafa greinst á degi hverjum í Bretlandi en alls hafa 604 þúsund smit greinst í Bretlandi frá upphafi faraldursins.

Ítalir hafi ekki efni á útgöngubanni

Ítalía hefur einnig orðið fyrir barðinu á aukningu í tilfellum og þar er búist við að hertari aðgerðir verði kynntar næstu daga. Smitum þar hefur einnig farið fjölgandi að undanförnu, þannig greindust yfir fimm þúsund smit á föstudaginn, í fyrsta sinn sem fjöldi smita fer yfir þá tölu síðan í mars.

Reiknað er með að yfirvöld í Ítalíu leggi blátt bann við einkaveislum og opnunartími bara og veitingastaða í Rómarborg verði skertur. Forsætisráðherra Ítalíu hefur sagt að ríkið hafi ekki efni á því að setja á annað útgöngubann, og því standa vonir til þess að vægari aðgerðir muni bera árangur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×