Innlent

Frekari að­gerðir fyrir fyrir­tæki og lista­menn í undir­búningi

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/vilhelm

Forsætisráðherra segir að frekari stuðningur stjórnvalda við fyrirtæki og listafólk vegna tekjufalls sé nú í undirbúningi. Ríkisstjórnin samþykkti í dag að framlengja og hækka lokunarstyrki til fyrirtækja sem þurft hafa að loka vegna sóttvarnaaðgerða.

Fjölmörg fyrirtæki hafa þurft að skella í lás vegna hertra sóttvarnaaðgerða í kórónuveirufaraldrinum undanfarna mánuði, til að mynda líkamsræktarstöðvar, skemmtistaðir og hárgreiðslustofur.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að koma til móts við þessi fyrirtæki og hækka lokunarstyrki frá því í vor, þannig að greiddar verði allt að sex hundruð þúsund krónur með hverjum starfsmanni fyrir hvern mánuð lokunar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við fréttastofu að ríkisstjórnin hafi komið til móts við þá gagnrýni sem hún hafi fengið.

„Það er að segja að lokunarstyrkir í vor nýttust fyrst og fremst litlum fyrirtækjum. Við höfum hækkað heildarþakið þannig að þetta mun gagnast líka þeim stærri fyrirtækjum sem núna hefur verið gert að loka,“ segir Katrín.

Hún áætlar að heildarkostnaður við þetta gæti orðið orðið á bilinu 3-400 milljónir króna miðað við mánaðarlokun. Þá séu frekar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum og öðrum í undirbúningi.

„Sem snúast um að mæta þeim rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli. Þar hefur ferðaþjónustan auðvitað verið nefnd, þar sem auðvitað mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli. Að þessir aðilar séu styrktir til að geta haldið ákveðinni lágmarksstarfsemi og fólki í vinnu,“ segir Katrín.

„Sömuleiðis erum við að undirbúa aðgerðir fyrir tónlistar og sviðslistafólk.“

Aðgerðirnar hafa hingað til almennt miðast við 75 prósent tekjufall. Katrín segir að verið sé að vinna í útfærslum á boðuðum viðbótaraðgerðum og þær muni skýrast síðar í þessum mánuði.


Tengdar fréttir

Boðar frekari og hærri lokunarstyrki

Ríkisstjórnin samþykkti nýja umferð lokunarstyrkja til fyrirtækja sem hafa þurft að stöðva starfsemi sína vegna sóttvarnaaðgerða í dag. Hámarksupphæð styrkjanna verður hækkuð frá því í vor og verða nú greiddar allt að 600.000 krónur með hverjum starfsmanni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×