Íslenski boltinn

KR sektað um 50 þúsund krónur vegna ummæla Rúnars um Ólaf Inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Kristinsson fór yfir strikið að mati aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.
Rúnar Kristinsson fór yfir strikið að mati aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. vísir/bára

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ákvað á fundi sínum í fyrradag að sekta knattspyrnudeild KR um 50 þúsund krónur vegna ummæla Rúnars Kristinssonar, þjálfara liðsins, eftir leik gegn Fylki í Pepsi Max-deild karla.

Framkvæmdastjóri KSÍ sendi greinargerð til aga- og úrskurðarnefndar vegna ummæla Rúnars á Vísi og Fótbolta.net. Að mati framkvæmdastjóra voru þau til þess fallin að skaða ímynd íslenskrar knattspyrnu og með þeim hafi Rúnar vegið að heiðri leikmanns Fylkis, Ólafs Inga Skúlasonar.

Í uppbótartíma leiks KR og Fylkis sunnudaginn 27. september fékk Beitir Ólafsson, markvörður KR, á sig vítaspyrnu fyrir að slá til Ólafs Inga. Beitir var einnig rekinn af velli. Sam Hewson skoraði sigurmark Fylkismanna úr vítaspyrnunni.

Eftir leikinn fór Rúnar hörðum orðum um Ólaf Inga og sakaði hann um óheiðarleika. Ummælin sem þóttu ósæmileg voru eftirfarandi:

„[...]Fíflagangur í Ólafi Inga, hann hagar sér eins og hálfviti inn á vellinum og fiskar rautt spjald á markmanninn okkar og hendir sér niður, hann leitar með höfuðið í hendina á Beiti, sem er löngu búinn að kasta boltanum út. Þetta er bara ljótt og við viljum ekki sjá þetta í fótbolta.“ 

„[...]Ólafur Ingi hagar sér eins og fífl og er að leitast eftir því að koma hausnum sínum í hendurnar á Beiti sem er löngu búinn að kasta út boltanum, pata út höndunum og benda eitthvað, þá hleypur hann með hausinn í hendurnar á honum og hann er bara að fiska þetta. Hann lætur alltaf svona.“ 

„[...]Þegar menn eru að svindla og ná sér í stig þannig, þá er ég ekki sáttur.“

Knattspyrnudeild KR var gefið tækifæri á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem og hún gerði 5. október. 

Á fundi aga- og úrskurðarnefndar daginn eftir var ákveðið að sekta knattspyrnudeild KR um 50 þúsund krónur vegna ummæla Rúnars. Að mati aga- og úrskurðarnefndar voru ummælin ósæmileg og sköðuðu ímynd íslenskrar knattspyrnu.

Úrskurð aga- og úrskurðarnefndar má lesa með því að smella hér.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem lið í Pepsi Max-deild karla fær 50 þúsund króna sekt vegna ósæmilegra ummæla. Knattspyrnudeild ÍA fékk sömuleiðis 50 þúsund króna sekt vegna ummæla Arnars Más Guðjónssonar um dómarann Guðmund Ársæl Guðmundsson.


Tengdar fréttir

Fylkir íhugar að kæra KR vegna ummæla Rúnars

Knattspyrnudeild Fylkis íhugar að leggja fram kæru á hendur KR og Rúnari Kristinssyni, þjálfara liðsins, vegna þeirra ummæla sem hann lét falla eftir 2-1 tap Íslandsmeistaranna í viðureign liðanna í gær.

Rýndu í rauða spjaldið sem Beitir fékk og gerði Rúnar foxillan

„Þegar lið vinna á þennan hátt þá er það bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, um lokin á leiknum við Fylki í gær. Kjartan Atli Kjartansson og Hjörvar Hafliðason rýndu í það sem þar gerðist í Pepsi Max tilþrifunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×