Fótbolti

Fótboltaleikjum kvöldsins frestað

Sindri Sverrisson skrifar
KR berst fyrir lífi sínu í Pepsi Max-deildinni.
KR berst fyrir lífi sínu í Pepsi Max-deildinni. vísir/hulda margrét

Knattspyrnusamband Íslands hefur frestað leikjum dagsins á meðan að sambandið bíður skýrari leiðbeininga yfirvalda um sóttvarnaaðgerðir.

Þetta kemur fram á vef KSÍ. Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tók gildi í morgun þar sem segir að tveggja metra regla skuli virt á höfuðborgarsvæðinu, en þar segir einnig að íþróttir utandyra séu leyfðar og 20 áhorfendur í hverju rými.

Sóttvarnalæknir hefur hins vegar kallað eftir því að keppnisíþróttum verði frestað næstu tvær vikurnar á meðan að reynt er að stemma stigu við uppgangi kórónuveirufaraldursins.

Fylkir og KR áttu að mætast í kvöld í mikilvægum leik í Pepsi Max-deild kvenna. Liðin áttu svo einnig að spila næsta sunnudag þegar heil umferð er á dagskrá í deildinni, en óljóst er hvert framhaldið verður. KR átti raunar að spila fjóra leiki á næstu ellefu dögum, þar sem liðið átti leiki til góða á önnur lið, og því allt útlit fyrir að lokaumferð Íslandsmótsins frestist.

Einnig var leik í 2. deild kvenna og 2. flokki karla frestað. „KSÍ mun taka frekari ákvarðanir um framhald mótahalds um leið og skýrari leiðbeiningar berast frá yfirvöldum,“ segir í yfirlýsingu frá KSÍ. 

Samkvæmt upplýsingum Vísis gera sérsamböndin sér vonir um að þessar leiðbeiningar berist í dag.


Tengdar fréttir

Akureyrarslagnum frestað

Þór og KA mætast ekki í Coca Cola bikar karla í handbolta í kvöld eins og til stóð. Leiknum var frestað vegna hertra sóttvarnareglna.

KKÍ frestar leikjum en bíður skýringa

Stjórn körfuknattleikssambands Íslands ákvað í morgun að fresta leikjum sem fram áttu að fara í dag. KKÍ bíður frekari skýringa varðandi nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×