Erlent

For­sætis­ráð­herrann hættur og ringul­reiðin mikil

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælum í höfuðborginni Bishkek.
Frá mótmælum í höfuðborginni Bishkek. AP

Forsætisráðherra Mið-Asíuríkisins Kirgistans hefur látið af embætti í kjölfar mikilla mótmæla sem blossuðu upp eftir umdeildar þingkosningar í landinu.

Glundroði ríkir nú í stjórnmálum landsins en búið er að ógilda nýafstaðnar kosningar þar sem stuðningsmenn forseta landsins hlutu góða kosningu. Stjórnarandstæðingar sögðu brögð hafa verið í tafli og hófust mikil mótmæli í kjölfarið. 

Stjórnvöld í Rússlandi og Kína hafa lýst yfir áhyggjum af ástandinu. BBC segir frá því forsætisráðherrann Kubatbek Boronov sé nú hættur og hafi mótmælendur skipað Sadyr Japarov í hans stað, en Japarov hafði nýverið verið sleppt úr fangelsi.

Mótmælendur höfðu áður ruðst inn í þinghúsið og bárust í gærmorgun fréttir af því að kveikt hafi verið í hluta þess.

Fjölmennt lið mótmælenda komu saman á götum höfuðborgarinnar Bishkek í morgun þar sem þess var krafist að forsetinn, Sooronbai Jeenbekov, yrði ákærður fyrir embættisbrot. Forsetinn gaf í skyn í gær að hann væri reiðubúinn að stíga til hliðar.

Í kosningunum var settur upp ákveðinn þröskuldur sem varð til þess að aðeins fjórir flokkar af sextán sem voru í framboði komust inn á þing. Af þeim fjórum voru þrír hliðhollir forsetanum.

Tveimur forsetum í Kirgistan hefur verið steypt af stóli á síðustu fimmtán árum.


Tengdar fréttir

Mót­mælendur í Kirgistan ruddust inn í þing­hús landsins

Mótmælendur í höfuðborg Kirgistans, Bishkek, réðust í morgun inn í þinghús landsins. Fólkið var að mótmæla nýyfirstöðnum þingkosningum í landinu og krefjast þess að þær yrðu lýstar ógildar en margir hafa sakað ráðandi öfl í landinu um kosningasvindl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×