Fótbolti

Ítalir glíma við kórónuveirusmit fyrir Íslandsför

Sindri Sverrisson skrifar
Alessandro Bastoni, leikmaður Inter og U21-landsliðsins, greindist með kórónuveirusmit samkvæmt Gazzetta dello Sport.
Alessandro Bastoni, leikmaður Inter og U21-landsliðsins, greindist með kórónuveirusmit samkvæmt Gazzetta dello Sport. Getty/Claudio Villa

Ítalska U21-landslið karla í fótbolta á að spila við Ísland í undankeppni EM á Víkingsvelli á föstudaginn. Tveir leikmenn greindust með kórónuveirusmit í ítalska hópnum í gær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu ítalska knattspyrnusambandsins. Ítalska liðið er sem stendur í Tirrenia á Ítalíu en æfingu dagsins hefur verið aflýst og leikmenn verið í einangrun síðan í gærkvöld. Þeir sem greinst hafi neikvæðir í gær fari allir aftur í smitpróf í dag.

Ef ítalski hópurinn getur haldið sínu striki og ferðast til Íslands munu meðlimir hans fara í smitpróf á Keflavíkurflugvelli. Greinist leikmaður með smit gæti hópurinn allur þurft að fara í sóttkví.

UEFA getur úrskurðað um sigurvegara

Það er í höndum UEFA að ákveða hvað gerist ef að leikurinn getur ekki farið fram á föstudaginn. Reglur UEFA segja til um að ef 13 leikmenn Ítalíu, þar af einn markmaður, eru til taks þá geti leikurinn farið fram. Annars er mögulegt að öðru liðinu, því sem talið er bera ábyrgð á að leikurinn fór ekki fram, verði úrskurðaður sigur. Ef UEFA kemst að þeirri niðurstöðu að hvorugu eða báðum liðum sé um að kenna getur hlutkesti ráðið úrslitum.

Afar mikilvægur leikur

Ísland á möguleika á að vinna riðilinn eftir frækinn sigur á Svíþjóð í síðasta mánuði. Ísland þarf þó líklega að vinna Ítalíu, sem og Lúxemborg næsta þriðjudag, og þá væri framundan úrslitaleikur við Írland á útivelli í nóvember. Írland er með 16 stig eftir sjö leiki, Ítalía 13 og Ísland 12 stig eftir sex leiki.


Tengdar fréttir

Smit greindist í starfsliði Rúmeníu

Einn úr starfsliði rúmenska landsliðsins í fótbolta greindist með kórónuveirusmit þegar skimað var fyrir veirunni í gær, eftir að rúmenski hópurinn kom saman í Búkarest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×