Umfjöllun: Ísland - Svíþjóð 1-0 | Sveinn Aron tryggði íslenska liðinu sigur í Fossvoginum

Víkingur Goði Sigurðarson og Andri Már Eggertsson skrifa
Sveinn Aron meiddi sig lítillega er hann skoraði sigurmarkið í dag.
Sveinn Aron meiddi sig lítillega er hann skoraði sigurmarkið í dag. Vísir/Daniel

Íslenska U-21 landslið í knattspyrnu karla steig í dag stórt skref í átt að umspilssæti fyrir EM 2021 með 1-0 sigri á Svíum. Ísland tapaði 5-0 í Svíþjóð fyrir minna en ári svo þetta var sætur sigur fyrir strákana okkar. 

Þetta var mikill baráttuleikur og skoraði Sveinn Aron Guðjohnsen sigurmarkið með skalla á 66. mínútu leiksins.

Svíar byrjaði leikinn betur og hefðu átt að komast yfir á 12. mínútu. Viktor Gyökeres komst þá inn í sendingu tilbaka hjá Willum Þór, keyrði upp völlinn og renndi boltanum fyrir Daleho Irandust liðsfélaga sinn. Irandust skaut hinsvegar í stöngina og Íslendingar sluppu með skrekkinn.

Þegar korter var búið af leiknum fóru Ísland að halda boltanum betur og tengja saman sendingar upp völlinn sem enduðu í hálffærum. Það var samt lítið um færi hjá Íslandi í fyrri hálfleik en varnarleikurinn var aftur á móti frábær. Hættulegasta skotið hjá Íslandi í fyrri hálfleik var örugglega þegar Willum Þór lét vaða frá miðju þegar markmaður Svía var í skógarferð.

Svíar áttu nokkur önnur fín færi í fyrri hálfleik en varnarmenn Íslands voru mjög duglegir í að komast fyrir skotin hjá þeim og hjálpa Patrik sem var í markinu. Spilið hjá Íslandi fór allt í gegnum Alex Þór Hauksson sem var að spila á miðjunni en féll alltaf niður, sótti boltann og kom sóknunum vel af stað.

Svíar byrjuðu seinni hálfleik líka betur og áttu nokkur hættuleg hálffæri fyrstu fimm mínúturnar. Síðan var eins og okkar menn hafi kveikt á sér og fóru að spila flottan bolta aftur. Ísak Bergmann fékk hættulegt færi á 54. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá Sveini Aroni Guðjohnssen. Ísak var óheppinn að varnarmaður Svía náði að pota í boltann áður en Ísak kom honum í netið.

Á 61. mínútu fékk Viktor Gyökeres fyrirliði Svía rautt spjald. Alex Þór Hauksson var að toga Viktor niður sem hann fékk í kjölfarið líka spjald fyrir en sænski fyrirliðinn lét ekki bjóða sér þetta og gaf Alex olnbogaskot. Tékknenski dómarinn Pavel Orel var ekki lengi að rífa upp rauða spjaldið en þetta hafði mikil áhrif á restina af leiknum.

Dómari leiksins sýnir Viktor Gyökeres fyrirliði Svía rauða spjaldið.Vísir/Daniel

Fljótlega eftir að Ísland varð manni fleiri komust þeir yfir með skallamarkinu frá Sveini Aroni. Ísak Bergmann kom með góða fyrirgjöf úr hornspyrnu beint á pönnuna á Svein Aron sem stangaði boltann inn. Sveinn Aron meiddist reyndar smávægilega við að skora markið og þurfti í kjölfarið að fara útaf fyrir Brynjólf Andersen Willumsson.

Svíarnir lágu alveg á Íslandi undir lokin en strákarnir okkar hleyptu þeim aldrei í nein dauðafæri. Hættulegasta færið var þegar varamaðurinn Svante Ingelsson átti skalla í átt að marki Íslendinga sem Patrik Sigurður Gunnarsson náði einhvern að teigja sig í og slá yfir markið. 

Patrik Sigurður átti frábæran leik í marki Íslands.Vísir/Daniel

Seinustu mínúturnar voru þó stressandi en Svíarnir fengu mikið af föstum leikatriðum þar sem fóru með alla fram, meiri að segja markmanninn sinn.

Af hverju vann Ísland?

Strákarnir okkar spiluðu mjög agaðan og skipulagðan varnarleik sem skilaði sér í þremur stigum. Sóknarleikurinn var mjög beinskeyttur án þess þó að þeir hafi verið að sparka bara hátt og langt.

Hverjir stóðu upp úr?

Alex Þór Hauksson var maður leiksins. Gæinn stoppaði endalaust af sóknum og stýrði sóknarleik Íslands alveg þarna á miðjunni. Síðan gerði hann líka helvíti þegar hann fiskaði rauða spjaldið á Viktor Gyökeres fyrirliða Svía. 

Alex Þór fór mikinn á miðju íslenska liðsins.Vísir/Daniel

Sveinn Aron var líka flottur en hann skoraði sigurmarkið. Willum Þór Willumsson var mjög góður í dag, sérstaklega eftir að hann færði sig aðeins neðar á völlinn þegar svona korter var búið. 

Patrik Sigurður Gunnarsson markmaður Íslands varði nokkrum sinnum vel án þess að stíga feilspor. Ísak Óli og Alfons voru mjög öruggir í vörninni hjá Íslandi og gerðu lítið af mistökum.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að búa sér til færi úr opnum leik. Svíar áttu kannski aðeins fleiri en þau voru ekki mörg góð. Ísland náði að loka teignum vel og láta þá reyna fyrirgjafir eða löng skot.

Stefán Teitur Þórðarson átti ekki sinn besta leik í dag en hann átti full mikið af feilsendingum fyrir minn smekk.

Thomas Isherwood í vörninni hjá Svíþjóð var alveg afleitur. Alltaf þegar hann fékk boltann sparkaði hann honum bara einhvert langt og leyfði Íslandi að fá hann.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur hjá U-21 landsliðinu er ekki fyrr en eftir meira en mánuð þegar þeir taka á móti stórskotaliði Ítala, ef þeir vinna þann leik eru þeir í góðum séns á að komast beint á EM.

Einhverjir af þessum af strákum eru að fara með A-landsliðinu til Belgíu í vikunni og fá vonandi tækifæri þar til að sýna sig.

Arnar Þór á hliðarlínunni.vísir/bára

Arnar Þór Viðarsson: Strákarnir unnu fyrir þessum sigri

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu hvort réttu leikmenninir voru valdir í liðið fyrir leikinn á móti Svíþjóð.

„Einsog ég haf sagt þá mega allir hafa sína skoðun en það er skemmtilegt að vinna ekki bara fyrir mig heldur strákana sem hafa verið frábærir alla vikuna að það komi smá umræða um liðið er bara gaman og þá sérstaklega þegar við skilum sigri,” sagði Arnar

„Við vissum það að Svíarnir urðu að vinna okkur til að vera inn í mótinu, því fórum við með það í huga að vera inn í leiknum sem lengst. Við vorum í basli í byrjun að finna okkur leik og vorum hræddir við að halda boltanum sjálfir og því fengu þeir nokkur færi skutu meðal annars í stöngina.”

„Við urðum betri og betri eftir því sem leið á leikinn og það var vítamín að fá rautt spjald á Svíann og stuttu eftir það skoraði Sveinn Aron frábært mark. Við töpuðum boltanum heldur auðveldlega í upphafi og þá eru Svíarnir góðir að ráðast á okkur einsog við fengum að kynnast í fyrri leiknum,” sagði Arnar um spilamennsku liðsins og var ánægður með hvernig liðið vann úr sínum vandræðum í upphafi leiks.

Eiður Smári fékk rautt í seinasta leik og var upp í stúku sem var ekki með neinum utan að komandi áhorfendum sem gerði honum auðvelt fyrir að koma skilaboðum á leiðis á liðið.

„Það er ekki slæmt að hafa mann einsog Eið Smára hinum megin að koma skilaboðum á framfarir, það var gott að hafa hann þar því hann sér leikinn á öðruvísi stað og er ekki í stressinu með mér og var gott að hann laumaði inn nokkrum gullmolum sem hjálpuðu.”

Rautt spjald átti sér stað þegar Alex Þór Hauksson var í baráttu við Viktor Gyökeres sem gaf honum olnbogann í andlitið sem fékk að líta rauða spjaldið.

„Þetta var rautt spjald það blæddi úr Alexi næstu 10 mínúturnar og er nefið á honum vel brotið en mér fannst dómarinn dæma leikinn vel og var ekkert út á það að setja að gefa rautt á þetta.”

Arnar var orðinn stressaður á að jöfnunarmarkið kæmi undir lok leiks þar sem Svíarnir herjuðu á liðið undir lok leiks með löngum boltum sem hefðu getað dottið þeirra megin en aðal færið þeirra í lok leiks var skalli frá Ísaki sem Patrekur Sigurður Gunnarsson varði mjög vel.

Eftir sigur á móti Svíþjóð gefur það Íslandi möguleikann á að komast í sjálfa lokakeppnina.

„Þetta fer eftir því hvað Ítalarnir gera á móti Írunum við eigum 4 leiki eftir þar þurfum við líklegast að vinna 3 af þeim 4 en fyrst og fremst ætlum við að fá að njóta þess að hafa unnið þennan leik þar sem við erum búnir að skilja Svíanna eftir og þá eru Ítalarnir næstir hér heima sem við förum að undirbúa á næstu vikum,” sagði Arnar um möguleika liðsins í riðlinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira