Innlent

Telur hlut­fall sýktra í sam­fé­laginu lægra en fyrstu niður­stöður gefi til kynna: Bæði af­brigði veirunnar á Ís­landi

Eiður Þór Árnason skrifar

Íslensk erfðagreining hefur nú skimað rúmlega þúsund sýni og af þeim hafa níu greinst með kórónuveiruna. Þrír hafa nú bæst við frá því í morgun þegar sex hundruð sýni höfðu verið skimuð og sex þeirra reynst jákvæð.

Nýjustu tölur sýna því að rétt innan við eitt prósent þeirra sem komið hafa í skimun síðustu daga eru með veiruna.

Telur að minna en eitt prósent þjóðarinnar sé með veiruna

„Ég reikna með því að dreifingin í samfélaginu sé í við minni, vegna þess að mér finnst líklegt að þeir sem hafi ástæðu til þess að leita eftir veirunni séu líklegri til að koma til okkar,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við fréttastofu.

Búið er að raðgreina veiruna úr tveimur sýnum. Að sögn Kára er önnur veiran af svonefndum L-stofni sem er rakinn til Evrópu og hin af S-stofni sem er ættaður frá Ameríku.

L-stofninn sem er algengari í Evrópu þykir skæðari en það kom Kára nokkuð á óvart að hinn mildari S-stofn hafi fundist hér á landi. 

Mun taka innan við sólarhring að greina sýnin

Skimunin gengur mjög vel og mættu 1049 til sýnatöku í gær og 1097 í dag.

„Við verðum akkúrat einum degi á eftir að greina sýnin. Áður en vinna stoppar hjá okkur í dag þá verðum við búin að skima öll sýnin síðan í gær.“

Kári telur Íslendinga enn hafa tækifæri til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar með þeim tólum sem yfirvöld hafi beitt fram að þessu.

Hann segir prófin sem Íslensk erfðagreining noti til að greina veiruna séu sambærileg þeim sem hafi verið notuð á Landspítalanum fram að þessu. Prófanir hafi einnig leitt í ljós að fyrirtækið sé að fá nákvæmlega sömu niðurstöður og veirufræðideild Landspítalans.


Tengdar fréttir

171 staðfest smit

Samkvæmt nýjustu upplýsingum af vefsíðu landlæknis og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra eru 171 smit staðfest hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×