Erlent

Kórónuveiran heldur áfram að breiðast um Hvíta húsið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Frá viðburðinum í Rósagarðinum 26. september. Fjöldi manns kom þar saman vegna tilnefningar Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara og er talið að rekja megi hópsmitið í Hvíta húsinu til viðburðarins.
Frá viðburðinum í Rósagarðinum 26. september. Fjöldi manns kom þar saman vegna tilnefningar Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara og er talið að rekja megi hópsmitið í Hvíta húsinu til viðburðarins. Getty/Jabin Botsford

Kórónuveiran virðist halda áfram að breiðast um Hvíta húsið í Bandaríkjunum og nú hefur Stephen Miller, einn af nánustu ráðgjöfum Donalds Trump Bandaríkjaforseta, tilkynnt að hann hafi greinst með veiruna í gær.

Miller hafði verið í sóttkví síðustu fimm daga og er nú kominn í einangrun. Hann sagði í yfirlýsingu að hann hefði greinst neikvæður alla daga allt þar til í gær. Eiginkona hans, Katie Miller, sem starfar sem talskona Mike Pence, varaforseta, greindist með veiruna í maí en náði sér.

Nú lætur nærri að um tuttugu manns sem starfa í Hvíta húsinu að jafnaði séu smitaðir af veirunni. Leiddar eru líkur að því að athöfn sem haldin var í Rósagarðinum svokallaða þann 26. september hafi orsakað hópsmitið. Athöfnin var haldin til þess að kynna val Trumps á Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara.

Þá virðist sem smit sé einnig komið upp hjá æðstu hershöfðingjum Bandaríkjahers og strandgæslunnar, en Charles Ray, aðmíráll og næst æðsti stjórnandi strandgæslunnar er smitaður.

Fjöldi háttsettra hermanna er því kominn í sóttkví, þar á meðal nær allt herforingjaráðið svokallaða og þar á meðal formaður þess, en þeir hittu Ray aðmírál á fundi í síðustu viku.

Segir að kappræðurnar ættu ekki að fara fram ef Trump er enn smitaður

Fimm dagar eru síðan Trump tilkynnti að hann og Melania Trump, eiginkona hans væru smituð af kórónuveirunni. Trump lagðist inn á sjúkrahús daginn eftir en var útskrifaður á mánudag.

Hann hefur sagt að honum líði vel og að hann hlakki til næstu kappræðna við Joe Biden, frambjóðanda Demókrata í forsetakosningunum, sem ættu að vera þann 15. október næstkomandi í Flórída.

Biden segir aftur á móti að kappræðurnar ættu ekki að fara fram ef Trump verður enn smitaður af kórónuveirunni.

Hann segir það ekki við hæfi að halda kappræðurnar í slíkum skugga auk þess sem það gefi slæm skilaboð út í samfélagið ef stjórnmálamenn fari ekki eftir samskiptareglum í faraldrinum, en Trump ætti að vera í einangrun ef hann er enn smitaður af veirunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.