Erlent

Djöflarnir snúa aftur til Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tasmaníudjöflar eru taldir geta spornað gegn villiköttum og hjálpað dýralífi Ástralíu.
Tasmaníudjöflar eru taldir geta spornað gegn villiköttum og hjálpað dýralífi Ástralíu. EPA/BARBARA WALTON

Tasmaníudjöflar eru snúnir aftur til Ástralíu eftir að þeir urðu útdauðir þar fyrir um þrjú þúsund árum. Djöflum var sleppt á afgirtu náttúruverndarsvæði í New South Wales í síðasta mánuði og stendur til að sleppa fleirum víðar um Ástralíu á næstunni.

Markmiðið er bæði að bjarga djöflunum sjálfum, en þeir hafa verið á lista yfir dýr í útrýmingarhættu frá 2008, og verja dýralífið í Ástralíu gegn villiköttum. Villikettir í Ástralíu hafa komið verulega niður á stofnum nagdýra sem kallast Bandicoot.

Talið er að djöflum hafi fækkað um 83 prósent á Tasmaníu, vegna sjúkdóms sem fór mjög illa með stofninn á undanförnum áratugum. Rannsóknir sýndu að villiköttum fjölgaði verulega á þeim svæðum þar sem djöflum fækkaði mjög.

Í frétt ABC News í Ástralíu frá því í mars er haft eftir vísindamönnum að talið sé að lífkerfi Ástralíu gæti hagnast mjög á því að flytja djöfla þangað og þeir sömuleiðis.

Dýralíf Ástralíu hefur beðið hnekki á undanförnum árum og hafa vanræðin að miklu verið rakin til loftslagsbreytinga. Gróðureldar hafa til að mynda drepið allt að þrjá milljarða dýra og þar að auki hefur skógarhögg dregið verulega úr svæðum þar sem dýr geta búið.

Útdauði spendýra er hvergi verri en í Ástralíu.

Frá því Evrópubúar stigu fyrst úr skipum sínunm í Ástralíu, með köttum sínum, er talið að nærri því 40 tegundir smádýra hafi dáið út. Gizmodo vitnar í rannsókn frá 2018 þar sem áætlað er að villikettir drepi um 1,8 milljón eðla á hverjum degi. Þeir drepi þar að auki 316 milljónir fulga og um 800 milljónir spendýra á ári hverju.

Steingervingar hafa sýnt að Tasmaníudjöflar voru í Ástralíu fyrir rúmum þrjú þúsund árum. Þeir eru þó taldir hafa horfið þaðan vegna ágangs frá dingóum og mönnum og veðurfarsbreytinga.

Leikarinn Chris Hemsworth og leikkonan Elsa Pataky, eiginkona Hemsworth, hjálpuðu til við að sleppa dýrunum og vöktu athygli á átakinu.

Alls var 26 dýrum sleppt inn í þúsund ekra afgirt friðland. Hvert dýr er með staðsetningartæki á sér og eru myndavélar víða um friðlandi. Djöflunum var sérstaklega sleppt þarna svo hægt væri að fylgjast með árangri tilraunarinnar.

Í frétt Reuters segir að verið sé að rækta fleiri Tasmaníudjöfla og að til standi að sleppa tuttugu til viðbótar á næsta ári og öðrum tuttugu árið 2022.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×