Erlent

Trump útskrifast af sjúkrahúsi í kvöld

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Myndin er tekin af Donald Trump í gær er hann sat símafund í fundarherbergi sínu á Walter Reed-sjúkrahúsinu í gær.
Myndin er tekin af Donald Trump í gær er hann sat símafund í fundarherbergi sínu á Walter Reed-sjúkrahúsinu í gær. AP/Tia Dufour - Hvíta húsið

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist munu útskrifast af Walter Reed-sjúkrahúsinu í Maryland í kvöld. Frá þessu greinir forsetinn í færslu á Twitter nú í kvöld þar sem hann segist vera góður til heilsunnar. Hann hvetur fólk einnig til þess að vera ekki hrætt við covid-19 og það skuli ekki leyfa veirunni að stjórna lífi sínu.

Trump greindist með covid-19 á fimmtudaginn og síðast í dag bættist Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, í hóp þeirra starfsmanna Hvíta hússins sem eru smitaðir af kórónuveirunni en margt starfsfólk Hvíta hússins og nánir samstarfsmenn forsetans eru nú ýmist smitaðir af veirunni eða eru í sóttkví.

„Við höfum þróað, í stjórnartíð Trump-stjórnarinnar, mjög frábær lyf og þekkingu. Mér líður betur en mér leið fyrir tuttugu árum!“ skrifar forsetinn ennfremur í færslu sinni.

Trump brást einnig við gagnrýni sem hann hefur sætt eftir að hann fór í bíltúr í gærkvöldi til að heilsa upp á stuðningsmenn sína sem höfðu margir komið saman fyrir utan Walter Reed spítalann. 

Líkt og svo oft áður beinir forsetinn gagnrýni sinni að fjölmiðlum í annarri færslu sem hann birti á Twitter áðan.

„Fjölmiðlar eru ósáttir vegna þess að ég fór í öruggri bifreið til að segja takk við mína fjölmörgu aðdáendur og stuðningsmenn sem höfðu staðið fyrir utan sjúkrahúsið í marga klukkutíma, jafnvel daga, til að votta forseta sínum virðingu. Ef ég hefði ekki gert það, þá hefðu fjölmiðlar sagt DÓNALEGT!!!“ segir í færslu forsetans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×