Erlent

Stefna ótrauðir að tilnefningu Barrett þrátt fyrir smit á þingi

Samúel Karl Ólason skrifar
Amy Coney Barrett og Mitch McConnell í síðustu viku.
Amy Coney Barrett og Mitch McConnell í síðustu viku. AP/Erin Schaff

Þrír af öldungadeildarþingmönnum Bandaríkjanna hafa smitast af Covid-19 og þrír til viðbótar eru í sóttkví. Allir eru þeir Repúblikanar og þess vegna hefur Mitch McConnell, forseti þingsins, frestað þingi um tvær vikur. Þingmenn munu koma saman þann 19. október í stað þess að koma saman á morgun eins og til stóð. Markmið þeirra er að staðfesta tilnefningu Amy Coney Barrett til Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Dómsmálanefnd þingsins mun byrja fundi sína vegna tilnefningarinnar þann 12. október.

Í yfirlýsingu sem McConnell sendi frá sér í gær segir að dagskrárbreytingin muni ekki hafa áhrif á tilnefningarferlið, sem hann lýsti meðal annars sem „sanngjörnu“.

Demókratar í öldungadeildinni, sem eru andvígir tilnefningu Barrett, segja McConnell ógna heilsu og öryggi bæði þingmanna og starfsmanna þingsins með ætlunum sínum. Of hættulegt sé að kalla þingið saman að svo stöddu, samkvæmt frétt Politico.

Demókratar hafa kvartað hástöfum yfir meintri hræsni Repúblikana varðandi tilnefningu Barrett og kapphlaup þeirra við að koma henni í Hæstarétt fyrir kosningarnar í næsta mánuði.

Eftir að hæstaréttardómarinn Antonin Scalia dó í febrúar 2016, neitaði McConnell, sem var þá einnig forseti öldungadeildarinnar, að láta greiða atkvæði um tilnefningu Marrick B. Garland til Hæstaréttar. McConnell sagði það ekki rétt þegar svo lítið væri eftir að forsetatíð Barack Obama. Forsetakosningar fóru einnig fram í nóvember 2016.

Sjá einnig: Heitir því að greiða atkvæði um nýjan hæstaréttardómara

Tveir þeirra þingmanna sem hafa smitast af Covid-19, þeir Mike Lee og Thom Tillis, eru báðir meðlimir í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar. Þeir hafa sagt að þeir muni einangra sig í tíu daga og myndi það gefa þeim tíma til að sækja fundi um Barrett, þegar þeir hefjast.

McConnell sagði í gær að til greina kæmi að einhverjir þingmenn myndu sækja fundinn í gegnum netið. Því hafa Demókratar hins vegar mótmælt og segja óásættanlegt að halda fjarfund um svo mikilvægt mál.

Tveir þingmenn Repúblikanaflokksins, þær Lisa Murkowski og Susan Collins hafa sagt að þær muni ekki staðfesta Hæstaréttardómara þegar svo stutt er í kosningar. Repúblikanar eru með 53-47 meirihluta í öldungadeildinni svo þeir mega ekki missa marga þingmenn til viðbótar.


Tengdar fréttir

Mesta íhaldssveifla í hæstaréttinum í áratugi

Hugmyndafræði Hæstaréttar Bandaríkjanna er líklegt til að taka skarpa hægribeygju til næstu áratuganna eftir að Donald Trump forseti tilnefndi Amy Coney Barrett, íhaldssaman áfrýjunardómara, til að taka sæti Ruth Bader Ginsburg í gær.

Rom­n­ey tryggir meiri­hluta repúblikana fyrir dómara­efni Trump

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings virðast nú hafa tryggt sér atkvæði nógu margra þingmanna sinna til þess að geta staðfest dómaraefni Donalds Trump forseta til Hæstaréttar eftir að Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður frá Utah, sagði ætla að greiða atkvæði með því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×