Erlent

Tíma­lína kórónu­veiru­smits Trump vekur upp spurningar

Sylvía Hall skrifar
Trump sést hér stíga úr flugvél sinni eftir lendingu í New Jersey þar sem hann sótti fjáröflunarsamkomu. Miðað við þá tímasetningu sem læknar gáfu upp vissi forsetinn að hann væri smitaður þegar hann hélt af stað.
Trump sést hér stíga úr flugvél sinni eftir lendingu í New Jersey þar sem hann sótti fjáröflunarsamkomu. Miðað við þá tímasetningu sem læknar gáfu upp vissi forsetinn að hann væri smitaður þegar hann hélt af stað. AP/Evan Vucci

Blaðamannafundur læknateymis Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur vakið upp margar spurningar varðandi kórónuveirusmit hans og líðan vegna þess. Sean Conley, læknir forsetans, sagði forsetann hafa fengið greininguna fyrir 72 klukkustundum, eða á miðvikudagsmorgun, en forsetinn tilkynnti það ekki fyrr en að minnsta kosti 36 klukkustundum síðar.

Forsetinn ferðaðist því á stuðningsmannafund í Minnesota eftir greininguna, en stuðningsmannafundurinn fór fram á miðvikudagskvöld. Á fimmtudag flaug hann til New Jersey á fjáröflunarsamkomu, og hafði þá enn ekki greint frá því að hann væri smitaður af kórónuveirunni. Forsetinn notaði ekki grímur við þessar aðstæður að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Áður hafði verið gagnrýnt að forsetinn og aðrir sem voru útsettir fyrir smiti héldu samt áfram að vera á meðal fólks eftir að einn nánasti ráðgjafi Trump greindist með veiruna.

Þá eru upplýsingar um ástand forsetans á reiki en þegar hann var fluttur á sjúkrahús í gær fullyrti Hvíta húsið að hann væri við góða heilsu; örlítið þreyttur en annars hress. Fjölmiðlar vestanhafs fullyrða þó að Trump hafi verið gefið súrefni áður en hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahúsið þar sem hann hefði átt í erfiðleikum með að anda.

Forsetinn birti svo Twitter-færslu nú á sjötta tímanum þar sem hann hrósaði heilbrigðisstarfsfólki sjúkrahússins. Með þeirra aðstoð væri hann í góðu standi.

Á fyrrnefndum blaðamannafundi fullyrtu læknar hans að forsetinn hefði það gott. Þeir væru bjartsýnir á batahorfur hans en gætu þó ekki gefið út hvenær þeir telja forsetann útskrifast af sjúkrahúsinu. Mánuður er til forsetakosninga í dag.

„Við erum gífurlega ánægð með framfarirnar sem forsetinn hefur sýnt,“ sagði Conley. Einkenni á borð við hósta væru hverfandi og hann væri almennt hress. Hann hefði meira að segja sagst geta „gengið út af spítalanum í dag“.


Tengdar fréttir

Stíga varlega til jarðar vegna smits forsetans

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segir að Covid-19 smit Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sé öflug áminning um að taka þurfi faraldur nýju kórónuveirunnar alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×