Íslenski boltinn

Nokkur orð sem ég hefði átt að sleppa en mörg sannleikskorn líka

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Kristinsson var hundóánægður með Ólaf Inga Skúlason á sunnudaginn og lét þung orð falla.
Rúnar Kristinsson var hundóánægður með Ólaf Inga Skúlason á sunnudaginn og lét þung orð falla. VÍSIR/BÁRA/VILHELM

Ummælum Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, í garð Fylkismannsins Ólafs Inga Skúlasonar hefur verið vísað til aga- og úrskurðanefndar KSÍ.

Þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við RÚV í gær. Fylkismenn sendu sömuleiðis í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu ummæli Rúnars væru honum og KR til háborinnar skammar.

Rúnar hafði meðal annars sakað Ólaf Inga um að setja upp leikrit, þegar hann hné niður eftir að hafa fengið handlegg Beitis Ólafssonar í andlitið í leik KR og Fylkis á sunnudag. Beitir fékk rautt spjald og Fylkir skoraði sigurmark úr vítinu sem dæmt var. „Þegar lið vinna á þennan hátt þá er þetta bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar meðal annars og sagði Ólaf Inga hafa hagað sér eins og hálfviti.

Eftir sigur KR gegn Víkingi R. í gær spurði RÚV Rúnar hvað honum þætti um yfirlýsingu Fylkis og þá ákvörðun framkvæmdastjóra KSÍ að vísa ummælum hans til aga- og úrskurðanefndar, á þeim forsendum að þau sköðuðu ímynd knattspyrnunnar:

„Ég vil ekki tjá mig um það núna. Ég er búinn að vera að reyna að einbeita mér að þessum leik í dag og hef haft í nógu öðru snúast þannig að ég ætla að bíða með að svara fyrir það,“ sagði Rúnar við RÚV og var þá spurður hvort hann stæði við ummæli sín:

„Ég sagði nokkur orð sem ég hefði átt að sleppa og ég get beðið hann hér og nú afsökunar á því, hann Ólaf Inga. En það er margt, og mörg sannleikskorn í því sem ég sagði líka,“ sagði Rúnar.


Tengdar fréttir

Rýndu í rauða spjaldið sem Beitir fékk og gerði Rúnar foxillan

„Þegar lið vinna á þennan hátt þá er það bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, um lokin á leiknum við Fylki í gær. Kjartan Atli Kjartansson og Hjörvar Hafliðason rýndu í það sem þar gerðist í Pepsi Max tilþrifunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×