Fótbolti

Sara fær góða HM-kveðju á stórafmælinu

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir jafnaði landsleikjamet Íslands í leiknum við Svíþjóð á dögunum.
Sara Björk Gunnarsdóttir jafnaði landsleikjamet Íslands í leiknum við Svíþjóð á dögunum. VÍSIR/VILHELM

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, fagnar þrítugsafmæli í dag og af því tilefni fær hún góða kveðju á Twitter-síðu heimsmeistaramóts FIFA.

Með kveðjunni fylgir myndskeið af Söru í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í sumar þar sem hún skoraði þriðja mark Lyon og innsiglaði 3-1 sigur liðsins á Wolfsburg, sínu gamla liði.

Í kveðjunni er Söru lýst sem hetju úr úrslitaleiknum og hún sögð afkastamikill titlasafnari. Það eru orð að sönnu. Frá því að Sara fór í atvinnumennsku 2011 hefur hún fjórum sinnum orðið sænskur meistari og unnið sænska bikarinn einu sinni, unnið deild og bikar í Þýskalandi fjögur ár í röð, og svo franska bikarinn og Meistaradeild Evrópu í sumar, auk minni titla.

Sara, sem var kjörin íþróttamaður ársins á Íslandi árið 2018, náði sömuleiðis frábærum árangri sem landsliðskona fyrir 30 ára afmælisdaginn. Hún jafnaði fyrr í þessum mánuði landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur með því að spila sinn 133. A-landsleik, og getur slegið metið í Gautaborg í næsta mánuði.

Sara hefur þrisvar sinnum farið með Íslandi í lokakeppni EM og verið í byrjunarliðinu í öllum tíu leikjunum sem Ísland hefur spilað á stórmóti til þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×