Erlent

Fyrrverandi kosningastjóri Trump hótaði að skaða sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Brad Parscale, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump.
Brad Parscale, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump. AP/Eric Gay

Brad Parscale, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump, var lagður inn á sjúkrahús í gær eftir að hann hótaði því að skaða sjálfan sig. Eiginkona hans hringdi á lögregluna í gær og sagði að hann væri vopnaður nokkrum skotvopnum og hefði hótað því að skaða sig. Lögreglan segir hann hafa verið lagðan inn til geðrannsóknar.

Parscale var lækkaður í tign innan framboðs Trump í júlí en hefur haldið áfram að stýra samfélagsmiðlavinnu framboðsins. Fregnir hafa borist af því að samband Parscale og Trump hafi farið versnandi á árinu.

Parscale þótti verja of miklum tíma í Flórída en ekki í Virginíu þar sem höfuðstöðvar framboðsins eru. Þá veltu innanbúðarmenn vöngum yfir því að Parscale hefði makað eigin krók á framboðinu.

Trump hafi þó misst traust á honum í sumar vegna misheppnaðar kosningafundar í Tulsa í Oklahoma. Parscale hafði byggt upp miklar væntingar sem stóðust alls ekki og neyddist Trump til að horfa á haf auðra sæta frá sviði sínu.

„Brad Parscale er í fjölskyldu okkar og við elskum hann. Við erum tilbúin til að styðja hann og fjölskyldu hans hvernig sem við getum,“ sagði Tim Murtaugh, talsmaður framboðs Trump.

Hann notaði tækifærið einnig til að skjóta á gagnrýnendur Trump og sakaði Demókrata og Repúblikana sem eru andsnúnir Trump um að hafa skaðað Parscale og fjölskyldu hans.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×