Erlent

Lúkasjenkó lét sverja sig í embætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Lúkasjenkó hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi frá 1994 og hefur verið nefndur „síðasti einræðisherra Evrópu“.
Lúkasjenkó hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi frá 1994 og hefur verið nefndur „síðasti einræðisherra Evrópu“. AP/Maxim Guchek

Óvænt innsetningarathöfn var haldin í Hvíta-Rússlandi þar sem Alexander Lúkasjenkó sór embættiseið til sjötta kjörtímabils síns í dag. Engin tilkynning var send út um athöfnina en enn er deilt hart um úrslit kosninganna sem fóru fram í síðasta mánuði.

Nokkur hundruð manns, þar á meðal embættismenn, þingmenn og fjölmiðlamenn, voru viðstödd athöfnina í höfuðborginni Minsk þegar Lúkasjenkó sór eið að stjórnarskránni, að sögn Belta-fréttastofunnar. 

„Dagurinn sem tekið er við embætti forseta er sigurdagur okkar, sannfærandi og afdrifaríkur. Við kusum ekki bara forseta landsins, við vorum að verja gildi okkar, friðsælt líf okkar, fullveldi og sjálfstæði,“ sagði Lúkasjenkó við athöfnina.

Stjórnarandstaðan í Hvíta-Rússlandi sakar Lúkasjenkó um stórfelld kosningasvik í kosningunum sem fóru fram 9. ágúst. Samkvæmt opinberum úrslitum vann Lúkasjenkó stórsigur.

Stjórn Lúkasjenkó hefur brugðist við mótmælum eftir kosningarnar með hörku. Hún á nú yfir höfði sér refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar og Evrópusambandsins. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur á hinn bóginn verið Lúkasjenkó innan handar og sagst tilbúinn að senda rússneskar öryggissveitir til Hvíta-Rússlands til að bæla niður mótmælin.

Anais Marin, mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna, að fleiri en tíu þúsund manns hefðu verið handteknir með ofbeldi í Hvíta-Rússlandi eftir kosningarnar. Fleiri en 500 tilkynningar um pyntingar hafi borist og þúsundir um að fólk hafi verið barið hrottalega, að sögn Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Lúkasjenkó sló milljarða lán hjá Pútín

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hét því að lána Hvíta-Rússlandi 1,5 milljarða dollara í lán þegar þeir Alexander Lúkasjenkó starfsbróðir hans hittust við Svartahaf í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×