Erlent

Lúkasjenkó sló milljarða lán hjá Pútín

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með þeim Lúkasjenkó (t.v.) og Pútín (t.h.) þegar þeir hittust í Sotsjí við Svartahaf í dag.
Vel fór á með þeim Lúkasjenkó (t.v.) og Pútín (t.h.) þegar þeir hittust í Sotsjí við Svartahaf í dag. Vísir/EPA

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hét því að lána Hvíta-Rússlandi 1,5 milljarða dollara í lán þegar þeir Alexander Lúkasjenkó starfsbróðir hans hittust við Svartahaf í dag. Hvatti Pútín Hvítrússa til þess að finna „sameiginlega lausn“ á ófriðinum sem hefur ríkt eftir umdeildar forsetakosningar í síðasta mánuði.

Fundur Pútín og Lúkasjenkó í dag er sá fyrsti frá því að fjöldamótmæli gegn stjórn þess síðarnefnda í Hvíta-Rússlandi hófust í ágúst. Ásakanir eru um að stuðningsmenn Lúkasjenkó hafi framið víðtæk kosningasvik sem skýri opinber úrslit sem gáfu forsetanum afgerandi sigur.

Pútín, sem viðurkennir Lúkasjenkó sem réttkjörinn forseta, hefur ítrekað boðið fram „aðstoð“ Rússlands við að kveða niður mótmælaölduna. Hann lofaði Lúkasjenkó láni að jafnvirði rúmra 200 milljarða íslenskra króna þegar þeir funduðu í Sotsjí við Svartahaf í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þakkaði Lúkasjenkó gestgjafa sínum fyrir stuðninginn í kjölfar kosninganna. Fyrir honum er sagt vaka með fundinum að sýna löndum sínum að Pútín fylgist grannt með gangi mála í Hvíta-Rússlandi og sé tilbúinn að senda inn öryggissveitir sínar.

Svetlana Tihanovskaja, leiðtogi hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar, harmar að Pútín forseti fundi með „einræðisherra.“ Lúkasjenkó hefur verið við völd í 26 ár og er gjarnan kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“. Varaði Tihanovskaja við því að ekkert sem þeir Pútín og Lúkasjenkó undirrituðu hefði lagalegt gildi.

„Samkomulag sem sá ólögmæti Lúkasjenkó skrifar undir verður endurskoðað af nýrri ríkisstjórn vegna þess að hvítrússneska þjóðin treysti Lúkasjenkó ekki lengur og studdi hann ekki í kosningunum. Ég harma að þú hafi ákveðið að ræða málin við einræðisherra frekar en hvítrússnesku þjóðina,“ sagði Tikhanovskaja sem er í útlegð í Litháen og beindi orðum sínum til Pútín.


Tengdar fréttir

Flýgur til Sot­sjí til fundar við Pútín

Verður þetta fyrsti fundur þeirra Alexanders Lúkasjenkó og Vladimírs Pútín, augliti til auglitis, frá því að mótmælaaldan braust út í Hvíta-Rússlandi eftir hina umdeildu forsetakosningar í síðasta mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×