Erlent

Segir Englendingum að gyrða sig í brók

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/Jessica Taylor

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur kallað eftir því að Englendingar taki sig á, sýni aga og fylgi nýjum sóttvarnarreglum. Í sjónvarpsávarpi í kvöld sagði forsætisráðherrann að of margir brytu gegn sóttvarnarreglum, þó flestir fylgi þeim, og haldi það áfram verði gripið til umfangsmikilla ferða- og samkomutakmarkana.

Smituðum hefur farið hratt fjölgandi undanfarna daga og jafnvel vikur í Bretlandi. Í gær var viðbúnaðarstig á Bretlandseyjum hækkað og í dag voru hertar reglur opinberaðar í Englandi. Ríkisstjórn Johnson setur ekki sóttvarnarreglur fyrir aðra hluta Bretlands.

Meðal þess sem nýju reglurnar fela í sér er að börum og veitingahúsum verður lokað fyrr, fólki er gert að vinna heima ef það hefur töku á. Allir verða að vera með andlitsgrímur í leigubílum og starfsmenn verslana þurfa að bera grímur. Þar að auki verður hætt við að hleypa áhorfendum á stóra íþróttaviðburði og ráðstefnu í næsta mánuði, eins og til stóð.

Í ávarpi sínu lýsti Johnson heimsfaraldri nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19, sem stærstu krísu heimsins á ævi hans og sagðist sannfærður um að enska þjóðin gæti snúið bökum saman og sigrast á faraldrinum.

Varaði hann við mörgum dauðsföllum ef það yrði ekki gert.

Johnson sagði að fólk gæti ekki komist upp með að taka eigin áhættu með veiruna.

„Hinn sorglegi raunveruleiki þess að vera smitaður af Covid er að vægur hósti eins getur orðið dauði annars.“

Sömuleiðis væri ekki hægt að einangra eldri borgara og láta veiruna smita aðra sem eru í minni hættu, eins og lagt hafi verið til. Hún myndi án efa ná einnig til eldri borgara og valda þeim miklum skaða.

Johnson sagðist einnig persónulega mótfallinn takmörkunum eins og þeim sem hann hefur sett á. Því fyrr sem hægt væri að fella þær úr gildi, því betra. Því þær ógni ekki bara störfum og afkomu fólks heldur einnig þeirri nánd sem maðurinn reiði sig á.

Hann sagði alla Englendinga þurfa að snúa bökum saman og ef það gengi ekki eftir gæti hann gengið lengra og sett á frekari takmarkanir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×