Umfjöllun og viðtöl: ÍA - Grótta 3-0 | Seltirningar í vandræðum

Atli Freyr Arason skrifar
Víkingur - ÍA, Pepsi Max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti.
Víkingur - ÍA, Pepsi Max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn KristinsdóttirÍA lyfti sér upp í sjöunda sæti Pepsi Max deildar karla með 3-0 sigri á Gróttu fyrr í dag en 17. umferðin klárast öll með fjórum leikjum í kvöld.

Leikurinn á Skaganum byrjaði hægt vægast sagt í vonsku veðri. Ekki nema 6 stiga hiti og mjög hvöss vestan átt sem stjórnaði svolítið ferðinni í dag. Bæði lið voru í erfiðleikum með að spila knettinum sín á milli vegna vindsins sem blés í áttina að Akraneshöllinni.

ÍA spilaði fyrri hálfleikinn með vindinn í bakið og það bar árangur á 25. mínútu þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson tekur hornspyrnu vinstra megin og skrúfar hann beint inn á markið og með örlítilli hjálp vindsins nær Tryggvi að skora beint úr hornspyrnunni. Það má þó setja spurningarmerki við Hákon Rafn Valdimarsson markvörð Gróttu í þessu marki.

Grótta vaknaði aðeins til lífsins eftir fyrsta mark Skagamanna og áttu nokkrar fínar marktilraunir án þess að ná að koma knettinum í netið. Í seinni hálfleik var svo allt annað að sjá til Gróttu liðsins og voru Seltirningar betri stærsta hluta seinni hálfleiksins þar sem þeir höfðu vindinn í bakið.

Þegar einungis tíu mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma þá fær Pétur Theódór upplagt marktækifæri eftir flottan undirbúning og fyrirgjöf Karls Friðleifs en Pétur nær ekki að nýta tækifærið, Skagamenn vinna boltann og bruna upp í sókn sem endar með því að Sigurður Hrannar Þorsteinsson skorar mark sem sennilega batt enda á síðustu vonir Gróttu að ná að bjarga sæti sínu í deildinni.

Fimm mínútum síðar er svo augljóslega brotið á Tryggva Hrafni innan vítateig Gróttu og Vilhjálmur Alvar dæmdi Skaganum víti í vil, það verður því enginn kenndur við rassgatsson eftir þennan leik á Skipaskaga!

Tryggvi steig svo sjálfur á punktinn og sendi Hákon Rafn í vitlaust horn. Fleiri mörk voru ekki skoruð í dag og fara Skagamenn því með verðskuldaðan sigur af hólmi.

Afhverju vann ÍA?

Skagamenn þekkja vindinn á Skipaskaga betur. Skoruðu fyrsta mark leiksins beint úr hornspyrnu með aðstoð frá vestanáttinni. Héldu svo Gróttu í skefjum stóran hluta seinni hálfleiks áður en þeir klára svo leikinn undir lokin.

Hvað gekk illa?

Hákon Rafn, markvörður Gróttu hefur átt betri daga. Hefði mátt gera mun betur í fyrsta markinu a.m.k.

Hvað gerist næst?

Grótta á erfiðan en áhugaverðan nágranaslag gegn Íslandsmeisturum KR á fimmtudag á Meistaravöllum á meðan að ÍA spilar við botnlið Fjölnis í Grafarvoginum.

Jóhannes Karl: Við verðum bara að vona að góðu dagarnir verði fleiri en þeir vondu

Jóhannes Karl Guðjónsson var glaður með sigurinn í viðtali eftir lokaflautið gall

„Virkilega sáttur með þrjú stig í dag. Það er alveg sama á móti hverjum þú spilar, þú þarft að hafa fyrir hlutunum eins og sást alveg hérna í dag. Mjög krefjandi aðstæður en við sköpuðum okkur samt alveg slatta af færum, skorum þrjú mörk og héldum hreinu. Ég er sáttur,“ sagði Jóhannes Karl.

Varnarleikur Skagamanna hefur verið gagnrýndur í sumar en þetta var aðeins í annað skipti sem liðið heldur marki sínu hreinu.

„Við sýndum gríðarlega mikla vinnusemi án bolta í dag og menn voru tilbúnir að hlaupa fyrir hvorn annan. Það er eitthvað sem við þurfum að taka með okkur inn í hvern einasta leik. Varnarfærslur voru góðar, auðvitað ekki alveg fullkomnar en ég er að mörgu leyti er ég ánægður með varnarmanni frá fresta til aftasta manns,“ sagði Jóhannes Karl aðspurður út í langþráð hreint lak í dag.

Leikurinn átti að fara fram í gær en þá var öllum leikjum frestað til dagsins í dag vegna slæms veðurs. Það var mikill og hvass vestanátt á Skaganum í dag sem nánast stjórnaði leiknum en Skipaskagi er ekki beint þekktur fyrir að vera mikil lognmolla. Nú þegar haustlægðirnar koma hver á fætur annarri þá er ástæða til að hafa áhyggjur fyrir einhverja.

„Þetta æðislega land okkar hefur ýmislegt upp á að bjóða þegar það kemur að veðrinu. Við getum auðvitað fengið fallega sólríka daga hérna á Skaganum alveg inn í nóvember en það geta líka komið fleiri svona dagar. Við verðum bara að vona að góðu dagarnir verði fleiri en þeir vondu. Ég vil samt hæla báðum liðum hérna í dag fyrir að glíma við þessar aðstæður og reyna að spila fótbolta,“ sagði Jóhannes um hið íslenska veðurfar.

Næsti leikur hjá Skagamönnum er gegn botnliði Fjölnis og sigur þar færi langleiðina með að gulltryggja sæti ÍA í Pepsi Max deildinni á næsta ári.

„Við ætlum okkur að vera í efstu deild og við erum búnir að leggja mikið á okkur að búa til lið sem er samkeppnishæft í efstu deild og rúmlega það. Í leiknum gegn Fjölni erum við að fara að sækja þessi þrjú stig sem eru í boði þar, það verður náttúrulega líka krefjandi verkefni,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.

Ágúst: Erfiðar aðstæður og smá klaufaskapur hjá okkur

Gústi Gylfa, þjálfari Gróttu gerði sér grein fyrir því fyrir leik að liðið væri í dauðafæri að reyna að spyrna sér af botninum með sigri á ÍA í dag og var hann því gífurlega svekktur með 3-0 ósigur í viðtali við leikslok.

„Þetta er svekkelsi. Þetta voru erfiðar aðstæður en mér fannst við vera lengi vel inn í leiknum. Þeir skora úr hornspyrnu í fyrri hálfleik þar sem hvorugt liðið skapaði sér mikið af færum. Við settum ágætlega á þá fyrstu 30-35 í seinni hálfleik án þess að skapa okkur mikið. Svo fáum við á okkur klaufamark og víti í lokin sem skilar þessu í 3-0, mér fannst þetta ekki öruggur sigur, þrátt fyrir að tölurnar segja 3-0 þá voru engir yfirburðir á vellinum hjá hvorugu liði. Það voru bara erfiðar aðstæður og smá klaufaskapur hjá okkur sem gera það að verkum að við töpuðum þessum leik,“ sagði Ágúst.

Grótta fékk dauðafæri til að jafna leikinn á 70. mínútu sem þeir nýta ekki og Skaginn rýkur af stað í hina áttina og skora mark sem klárar leikinn.

„Þetta er kannski saga okkar í sumar. Við fáum kannski tvo til þrjúþrú ágætis færi og þá eigum við til að gleyma okkur í varnarleiknum, förum í þetta sem kallast „ball watching“ og fáum mark í andlitið. Það er oft eitthvað sem nýliðar þurfa að glíma við og við erum í þessu því miður. Það er ekkert sérstakt að vera næstum því á botninum. Skagamenn eru nú komnir á fínan stað í töflunni og skilja okkur svolítið eina eftir á botninum með Fjölni. Þetta lítur ekki sérstaklega vel út fyrir okkur en eins og ég hef oft sagt áður, á meðan það er möguleiki þá gerum við okkar besta að reyna að halda okkur í deildinni,“ sagði Ágúst um klaufaskap nýliðanna í sumar.

Varnarleikur ÍA hefur eins og minnst var á hér að ofan fengið mikla gagnrýni og hefur ekkert lið fengið meira af mörkum á sig í deildinni en Skagamenn. Grótta er eina liðið sem ÍA hefur haldið hreinu gegn í sumar og það tvisvar. Aðspurður afhverju Grótta er eina liðið sem nær ekki að skora gegn Skaganum í ár sagði Ágúst:

„Við fengum ekki mikið af færum, þau fáu færi sem við fáum gegn Skaganum nýtum við ekki á meðan þeir skora sjö mörk á okkur. Það er ekkert sérstakt.“

Ágúst Gylfason verður þjálfari Gróttu árið 2021 sama hvort liðið verði í Pepsi Max eða Lengjudeildinni.

„Ég er með samning út næsta ár og ég virði það,“ sagði Ágúst að lokum.

Ísak Snær: Það var kominn tími á sigur

ÍA vann Gróttu fyrr í dag í afar mikilvægum leik þar sem að Skaginn náði með sigri að aftengja sig að einhverju leyti frá fallbaráttunni. Ísak Snær Þorvaldsson átti góðan leik á miðju Skagamanna eins og áður og var þessi ungi og efnilegi miðjumaður virkilega ánægður í viðtali eftir leik þrátt fyrir að vera alveg draghaltur.

„Algjör veisla. Það var kominn tími á sigur. Við erum búnir að vera sigurlausir í nokkurn tíma þannig það er mjög gott að fá loksins sigur. Við spiluðum vel miðað við veðuraðstæður,“ sagði Ísak Snær um sigurinn í dag.

Veðuraðstæður spiluðu stórt hlutverk í leik dagsins sem hafði verið frestað frá deginum á undan. Voru veður aðstæðurnar í dag boðlegar að mati Ísaks?

„Í rauninni ekki en það skiptir ekki máli svo lengi sem við spilum fótbolta þá erum við ánægðir,“ sagði Ísak aðspurður um veðrið.

Varnarleikur ÍA hefur verið mikið á milli tannanna á sérfræðingunum í sumar en ekkert lið hefur fengið fleiri mörk á sig en Skagamenn. ÍA tókst að halda marki sínu hreinu í dag en er þetta einungis í annað sinn sem það skeður í sumar.

„Það var kominn tími til“ sagði Ísak hlægjandi er hann var spurður að því hvernig honum leist á að fá loksins hreint lak og bætti síðan við „Þetta var bara frábært frá öllu liðinu fannst mér. Við vorum þéttir, við misstum þá nokkru sinnum í gegn en það var bara vegna mistaka frá okkur þar sem mér fannst þeir ekkert vera að ná að opna okkur það vel en frábært hjá liðinu að halda hreinu í þessum leik,“

Ísak kom haltrandi inn í viðtal með íspoka á löppinni en hann fékk mikið af spörkum í sig í dag en spilaði samt heilar 90 mínútur. Ísak er viss um að harka þetta af sér og verða klár í næsta leik.

„Ég er búinn að fá nokkur högg í hásina og hún er svolítið aum. Þetta er smá ‚setback‘ en ég verð góður fyrir næsta leik,“ sagði Ísak öruggur.

Næsti leikur ÍA er gegn botnliði Fjölnis en Skagamenn hafa eftir sigurinn í dag ellefu stigum meira en Grafarvogsbúar. Ísak býst við því að hann og liðsfélagar hans þurfi að gefa allt í þann leik til að sækja þrjú stig.

„Við förum á fullum krafi í næsta leik og við viljum sækja sigur í þeim leik eins og í öllum leikjum og við munum gefa

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.