Íslenski boltinn

Óskar Örn getur bætt leikjametið í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Örn Hauksson í fyrri deildarleik KR og Breiðabliks.
Óskar Örn Hauksson í fyrri deildarleik KR og Breiðabliks. vísir/bára

Ef Óskar Örn Hauksson kemur við sögu í leik Breiðabliks og KR á Kópavogsvelli í Pepsi Max-deild karla í kvöld slær hann leikjametið í efstu deild.

Óskar Örn jafnaði leikjamet Birkis Kristinssonar þegar hann kom inn á sem varamaður í 1-2 tapi KR fyrir Stjörnunni um síðustu helgi. Það var 321. leikur Njarðvíkingsins í efstu deild.

Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir Grindavík 2004. Óskar Örn lék með Grindavík í þrjú ár en hefur verið hjá KR síðan 2007. Hann er bæði leikja- og markahæsti leikmaður KR í efstu deild.

Óskar Örn var valinn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar í fyrra þegar KR varð Íslandsmeistari. Hann hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með KR og fjórum sinnum bikarmeistari.

Óskar Örn hefur komið við sögu í öllum tólf leikjum KR í Pepsi Max-deild karla í sumar. Hann hefur ekki misst af deildarleik síðan 2015.

Þetta er þriðji leikur KR og Breiðabliks í sumar. KR vann leik liðanna í Pepsi Max-deildinni 13. júlí með þremur mörkum gegn engu. Þann 10. september sigruðu KR-ingar svo Blika, 2-4, í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Leikur Breiðabliks og KR hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Leikjahæstir í sögu efstu deildar

  • Óskar Örn Hauksson - 321 leikur
  • Birkir Kristinsson - 321 leikur
  • Gunnleifur Gunnleifsson - 304 leikir
  • Gunnar Oddsson - 294 leikir
  • Atli Guðnason - 285 leikir
  • Kristján Finnbogason - 268 leikir
  • Sigurður Björgvinsson - 267 leikir
  • Atli Viðar Björnsson - 264 leikir
  • Baldur Sigurðsson - 261 leikur
  • Guðmundur Steinarsson - 255 leikir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×