Íslenski boltinn

Óttar Magnús fer til Feneyja

Sindri Sverrisson skrifar
Óttar Magnús Karlsson hefur skorað 9 mörk í 12 deildarleikjum í sumar fyrir bikarmeistara Víkings.
Óttar Magnús Karlsson hefur skorað 9 mörk í 12 deildarleikjum í sumar fyrir bikarmeistara Víkings. VÍSIR/BÁRA

Óttar Magnússon Karlsson, framherji Víkings R., hefur gengið frá samkomulagi við ítalska B-deildarfélagið Venezia og mun fara þangað í haust.

Þetta fullyrti fjölmiðlamaðurinn Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþætti sínum Dr. Football. Sagði Hjörvar að Óttar, sem er 23 ára, myndi geta spilað næstu leiki með Víkingi eða fram að 5. október, þegar félagaskiptaglugginn í Evrópu lokast.

Óttar, sem skorað hefur 9 mörk í 12 deildarleikjum í sumar, gæti því leikið sex leiki til viðbótar í Pepsi Max-deildinni en Hjörvar sagði að síðasti leikur kappans yrði gegn KA 4. október. Víkingur siglir frekar lygnan sjó í deildinni – níu stigum frá Evrópusæti og sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Venezia hefur þegar náð í einn Íslending því félagið keypti Bjarka Stein Bjarkason af ÍA í síðasta mánuði.

Venezia varð í 11. sæti af 20 liðum í ítölsku B-deildinni á síðustu leiktíð, sem lauk ekki fyrr en 31. júlí vegna kórónuveirufaraldursins. Ný leiktíð hefst eftir viku, 26. september.

Óttar er ekki ókunnugur atvinnumennsku. Hann fór 16 ára gamall til Ajax sumarið 2013 og lék með yngri liðum félagsins. Hann hefur einni verið hjá Molde í Noregi, að láni hjá Trelleborg í Svíþjóð og svo hjá Mjällby í Svíþjóð áður en hann kom aftur til Víkings fyrir rúmu ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×