Íslenski boltinn

Gamla liðið hennar Hólmfríðar kaupir hana frá Selfossi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í leiknum gegn KR á laugardaginn sem var hennar síðasti leikur fyrir Selfoss, allavega í bili.
Hólmfríður Magnúsdóttir í leiknum gegn KR á laugardaginn sem var hennar síðasti leikur fyrir Selfoss, allavega í bili. vísir/Hulda Margrét

Norska úrvalsdeildarliðið Avaldsnes hefur keypt Hólmfríði Magnúsdóttur frá Selfossi. Hún samdi við Avaldsnes til loka tímabilsins.

Hólmfríður þekkir vel til hjá Avaldsnes en hún lék með liðinu á árunum 2012-16. Hólmfríður skoraði 45 mörk í 70 leikjum fyrir Avaldsnes.

Hólmfríður, sem verður 35 ára á sunnudaginn, hefur leikið ellefu leiki með Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í sumar og skorað tvö mörk. Þau komu bæði í 0-5 sigrinum á KR á laugardaginn. Hólmfríður skoraði einnig þrjú mörk í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum.

Eftir að hafa misst af tímabilinu 2018 vegna barneigna gekk Hólmfríður í raðir Selfoss fyrir síðasta tímabil. Hún átti stóran þátt í því að liðið endaði í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar og varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. Hún skoraði fyrra mark Selfoss í 2-1 sigrinum á KR í bikarúrslitaleiknum.

Selfoss er í 4. sæti Pepsi Max-deildar kvenna með nítján stig og er komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins.

Avaldsnes er í 4. sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Lyn 27. september.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.