Íslenski boltinn

Sérfræðingarnir völdu sitt byrjunarlið gegn Lettum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvernig verður byrjunarlið Íslands gegn Lettlandi skipað?
Hvernig verður byrjunarlið Íslands gegn Lettlandi skipað? vísir/vilhelm

Í Pepsi Max mörkum kvenna í gær brugðu sérfræðingarnir Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir sér í hlutverk landsliðsþjálfara og völdu sitt byrjunarlið fyrir leikinn gegn Lettlandi í undankeppni EM annað kvöld.

Athygli vakti að sérfræðingarnir völdu báðir Sveindísi Jane Jónsdóttir, annan tveggja nýliða í íslenska hópnum, í sitt byrjunarlið. Annars voru þau nokkuð ólík. Bára stillti upp í leikkerfið 4-3-3 en Kristín í 3-5-2.

„Sara [Björk Gunnarsdóttir] er öftust á miðjunni með tvo mjög skapandi miðjumenn fyrir framan sig [Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Alexöndru Jóhannsdóttur] því við ætlum að vera sóknarsinnaðar í þessum leik,“ sagði Bára.

„Svava Rós [Guðmundsdóttir] er vinstra megin og Elín Metta Jensen og Sveindís sem er tvíeyki sem ég myndi mjög gjarnan vilja sjá saman í sókninni.“

Byrjunarlið Báru.vísir/stöð 2 sport

Bára ákvað að veðja á reynsluna og vera með Söndru Sigurðardóttur í markinu. Kristín valdi hins vegar hina sautján ára Cecilíu Rán Rúnarsdóttur.

„Mér finnst hún vera tilbúin að taka þetta og ég vil bara hafa hana í markinu nú og síðar,“ sagði Kristín sem stillti upp mjög reynslumikilli miðju með þær Söru Björk, Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur.

„Þetta er landsliðsverkefni og það eru tveir leikir framundan. Ég ætla því að nota þennan leik til að undirbúa Svíaleikinn. Hann verður erfiðasti leikur sem við höfum spilað lengi og ég vil nota allan tímann til að undirbúa mig fyrir hann.“

Byrjunarlið Kristínar.vísir/stöð 2 sport

Hér fyrir neðan má sjá umræðuna um byrjunarlið sérfræðinganna og um leikinn gegn Lettum. Hann hefst klukkan 18:45 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 18:15.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um landsliðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×