Íslenski boltinn

ÍBV að heltast úr lestinni | Magni í vondum málum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það gengur hvorki né rekur hjá ÍBV þessa dagana.
Það gengur hvorki né rekur hjá ÍBV þessa dagana. Vísir/ÍBV

ÍBV gerði enn eitt jafnteflið í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag er Leiknir Fáskrúðsfjörður heimsótti Vestmannaeyjar. Þá vann Vestri 2-1 sigur á Magna Grenivík og gestirnir aftur komnir í neðsta sæti deildarinnar.

Leik ÍBV og Leikni F. lauk með markalausu jafntefli þrátt fyrir að ÍBV hafi sótt stíft undir lok leiks og meðal annars komið boltanum yfir marklínuna. Rangstaða var dæmd og markið stóð því ekki.

ÍBV hefur nú leikið 16 leiki í Lengjudeildinni í sumar og gert átta jafntefli. Má segja að jafnteflin séu að gera út um vonir Eyjamanna að snúa aftur í Pepsi Max deildina að ári. Liðið er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 26 stig. Fram og Keflavík eru á toppnum með 32 og 30 stig ásamt því að bæði lið eiga leik til góða á ÍBV. Raunar á Keflavík tvo leiki til góða.

Leiknir Reykjavík er svo í 3. sæti með 29 stig og eiga þeir einnig leik til góða á ÍBV.

Í hinum leik dagsins í Lengjudeildinni bar Vestri sigur úr bítum gegn Magna á Ísafirði. Lokatölur 2-1 en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. Vlademir Tufegdzic og Pétur Bjarnason komu Vestra í 2-0 áður en Tómas Örn Arnarson minnkaði muninn fyrir gestina undir lok fyrri hálfleiks.

Fleiri urðu mörkin ekki og Vestri því komið í 6. sæti deildarinnar með 23 stig á meðan Magni er á botninum með aðeins níu stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×