Íslenski boltinn

Kefla­vík vann ÍBV í mikil­vægum leik í Eyjum | Sjáðu mörkin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kian Paul James Williams skoraði eitt marka Keflavíkur er liðið vann ÍBV í mikilvægum leik í Lengjudeildinni á laugardaginn.
Kian Paul James Williams skoraði eitt marka Keflavíkur er liðið vann ÍBV í mikilvægum leik í Lengjudeildinni á laugardaginn. Vísir/Vilhelm

Keflavík vann frábæran sigur á ÍBV í Lengjudeildinni á laugardaginn var. Sigurinn setur Keflavík í einkar góða stöðu á meðan vonir ÍBV um sæti í Pepsi Max deildinni að ári fara dvínandi.

Josep Arthur Gibbs getur ekki hætt að skora í liði Keflavíkur og kom hann liðinu yfir á 12. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu. Lengi vel leit út að leikurinn myndi einfaldlega enda 1-0 Keflavík í vil en svo var aldeilis ekki.

Þegar komið var á 83. mínútu leiksins átti Keflavík sókn. Gibbs gaf á Kian Paul James Williams sem var við vítapunktinn en skot hans hafnaði í stönginni. Þaðan barst boltinn til Gibbs sem gat ekki annað en skorað, hans 18. mark í aðeins 14 leikjum í sumar.

Aðeins þremur mínútum síðar var það svo Kian sem tryggði Keflavík sigurinn eftir að hafa fengið sendingu frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni inn á teig. Kian snéri varnarmenn ÍBV af sér og lagði boltann í hornið. Önnur stoðsending Rúnars Þórs í leiknum en hann átti aukaspyrnuna sem rataði á kollinn á Gibbs í fyrsta marki leiksins.

Jón Jökull Hjaltason minnkaði muninn fyrir ÍBV í uppbótartíma en nær komust heimamenn ekki. Frábær sigur Keflvíkinga staðreynd sem eru nú í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Fram sem sitja í toppsætinu. Toppliðin mætast á morgun klukkan 16:30 í Keflavík.

ÍBV – sem leikur nú gegn Leikni F. á heimavelli – eru dottnir niður í 4. sæti deildarinnar. Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum frá því á laugardag.

Klippa: Keflavík valtaði yfir ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×