Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 0-3 | Þægilegur Vals sigur á Samsung

Atli Freyr Arason skrifar
Elín Metta Vilhelm 2

Valur skoraði 3 mörk gegn engu er þær unnu Stjörnuna í Garðabæ fyrr í dag. 

Valur komst yfir strax á 8. mínútu leiksins þegar Hlín Eiríksdóttur skoraði laglegt mark en skot hennar fyrir utan vítateig söng í fjær horninu. Eftir mark Vals komst Stjarnan aftur aðeins inn í leikinn og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir sem hafði skorað 4 mörk í síðustu 5 leikjum fyrir Stjörnuna átti nokkrar fínar tilraunir en ekkert sem Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals, réð ekki við og gengu leikmenn því til búningsherbergja í stöðunni 0-1 fyrir Val.

Síðari hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri. Valur meira með boltann en Stjarnan varðist vel. Það dróg þó ekki til tíðinda fyrr en á 67 mínútu þegar Elín Metta tvöfaldar forystu Vals. Heimakonur eru þá í miklu basli við að hreinsa boltann úr sínum eigin vítateig sem markahrókurinn Elín Metta var ekki lengi að refsa fyrir. Stingur stóru tánni í knöttinn sem skýst fram hjá Erin Mcleod, markvörð Stjörnurnar. Elín Metta er nú markahæst í deildinni með 12 mörk, ásamt bæði Sveindísi Jane og Berglindi Björgu.

Á 73. mínútu hefðu Valskonur átt að komast í 0-3 en Erin McLeod á þá markvörslu tímabilsins þegar hún ver marktilraun Bergdísar Fanneyjar sem hafði stuttu áður komið inn á sem varamaður. Það var þó annar varamaður, Mist Edvardsdóttir sem skoraði þriðja og síðasta mark Vals á 82. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Hlín Eiríks úti á hægri væng og leiknum lauk því með 0-3 sigri Vals.

Af hverju vann Valur?

Valur var einfaldlegra betra liðið í dag. Þær voru meira með boltann og sköpuðu sér meira af tækifærum. Stjarnan varðist mjög vel á köflum gegn sterku Vals liði en það dugði ekki til í dag.

Hvað gekk illa?

Sóknaraðgerðir Stjörnurnar gengu ekki nógu vel í dag. Þær hefðu mátt ógna Söndru í marki Vals meira í leiknum.

Hvað gerist næst?

Næst á dagskrá er landsleikjahlé. Stór hluti Valshópsins mun fara í það verkefni. Eftir landsleikjahlé bíður Valskonum erfiður útileikur gegn Fylki, en Fylkir og Breiðablik eru einu liðin sem hafa náð stigum af toppliði Vals í sumar.

Eftir landsleikjahlé þá á Stjarnan mjög mikilvægan leik gegn botnliði KR þann 26. september.

Kristján Guðmundsson: Mjög skrýtinn leikur

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnurnar var furðu lostinn í viðtali eftir leik.

„Þetta var bara mjög skrýtinn leikur í alla staði. Mjög mikil deyfð yfir þessu og einhvern veginn furðulegur leikur,“ sagði Kristján.

Stjarnan gerði lengi vel að halda Valskonum í skefjum lengst af með fínum varnarleik. Mörkin sem Valur skoraði virtist þó oftar en ekki koma upp úr litlu sem engu. Aðspurður í mörk Vals í leiknum sagði Kristján

„Ég man eftir öðru markinu, ég er hundfúll út í það. Algjör óþarfi að skilja hana [Elínu Mettu] eftir þarna en ég man ekki eftir fyrsta markinu akkúrat núna. Þetta fylgir því að þessi leikur var eitthvað skrítinn. Út af hverju það er veit ég ekki, gæti verið vegna þess að við erum að spila 3 leikin í þessari viku, við 3 bestu lið landsins. Við erum búnar að gefa mikla orku í þessa viku. Það var eitthvað sem að orsakaði því að það var deyfð yfir þessu öllu og mér fannst leikurinn allur vera einhvern veginn þannig, dauft,“ sagði Kristján þungur á brún.

Það hafa ekki mörg lið verið öfundsjúk í leikjaprógram Stjörnurnar í vikunni. Liðið spilaði við Selfoss, Breiðablik og Val á sjö dögum. Kristján væri þó alveg tilbúinn í að gera þetta allt aftur.

„Neinei. Ég myndi alveg vilja taka þátt í vikunni aftur vegna þess að liðið stóð sig gífurlega vel í þessum leikjum. Það er kannski bara þessi leikur í kvöld sem maður klórar sér í hausnum yfir og spáir afhverju þetta var svona dauft,“ endurtók Kristján og bætti svo við:

„Það getur vel verið að það sé búið að leggja svo mikla orku í síðustu tvo leiki og í undirbúning fyrir þennan leik að við vorum kannski ekki með alveg allt á tæru. Ég held samt að myndin sem við fáum af liðinu eftir þessa þrjá leiki sé nokkuð góð,“ sagði Kristján ánægður með frammistöðu liðsins í þessari erfiðu viku.

Það er þó lítið fleira skemmtilegt framundan hjá Kristjáni, sem sjálfur er ekkert svo hrifinn af landsleikahléum.

„Þetta er leiðinlegasta hlé sem til er! Það er fínt að fara í hlé í bíó, þá fær maður allavega eitthvað skemmtilegt en landsleikjahlé er eitthvað það leiðinlegasta sem til er. Við munum samt nota þessa viku til að hlaða batteríin og hafa gaman á æfingum en svo byrjum við bara að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Það verður allavegana gaman í þessari viku og svo helgarfrí,“ sagði Kristján eftir leik.

Pétur: Ég er með allar í landsliðinu

Pétur Pétursson þjálfari Vals liðsins sagðist fyrst og fremst vera ánægður með stigin þrjú í viðtali eftir leik. Aðspurður hvers vegna liðið hans fékk öll stigin í kvöld fannst Pétri það ekkert flókið mál.

„Við vorum betri en þær og skoruðum þrjú mörk,“ sagði Pétur

Pétur hrósaði andstæðingi sínum í dag fyrir erfiðan leik en hann var sáttur með leik sinna kvenna gegn erfiður Stjörnuliði.

„Ég var ánægður með margt. Það er búið að vera mikil törn í gangi, mikið af leikjum. Maður sá alveg að það var kominn þreyta í bæði lið og ég ánægður að þær héldu út í dag og kláruðu leikinn vel en ég verð samt líka að hrósa Stjörnunni, þær gerðu okkur mjög erfitt fyrir. Þær spiluðu góðan leik og það er alltaf erfitt að spila á móti Stjörnunni,“ sagði Pétur í leikslok.

Það er búið að vera þétta dagskrá í Pepsi Max deildinni en framundan er smá pása á deildinni vegna landsleikahlés. Pétri er þó ekkert létt þó það sé landsleikjahlé næstu helgi.

„Nei, af því að ég er með allar í landsliðinu, það er ekkert kærkomið,“ sagði Pétur og hló áður en hann bætti við: „Jájá, þetta er bara svona, við erum með einhverja sjö leikmenn í landsliðinu og við getum allavega æft eitthvað öðruvísi en við höfum verið að gera.“

Deildin í fyrra réðst á innbyrðis viðureignum milli Breiðabliks og Vals og margir hafa spáð að sama staðan verði upp á teningnum í ár. Pétur vill bíða og sjá áður en hann tjáir sig eitthvað frekar um úrslitaleik.

„Ég veit það ekki. Við eigum eftir einn leik innbyrðis. Við vitum ekki hvernig staðan verður þá, þetta snýst um að bæði lið verða að vinna alla sína leiki þannig að þetta verður bara spennandi,“ sagði Pétur Pétursson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira