Erlent

Hand­tóku mann, héldu honum niðri og stuðuðu í­trekað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Myndband sem náðist af handtökunni hefur vakið gríðarleg viðbrögð.
Myndband sem náðist af handtökunni hefur vakið gríðarleg viðbrögð. Sebastian Barros/NurPhoto via Getty

Minnst sjö hafa látist í mótmælum í Bogotá, höfuðborg Kólumbíu, mótmælin hófust eftir að karlmaður á fimmtugsaldri lést eftir að lögreglumenn handtóku hann, héldu honum í jörðinni og beittu ítrekað á hann rafbyssu.

Myndband sem sýnir handtökuna hefur farið í dreifingu á netinu. Þar sést hinn 46 ára gamli lögfræðingur Javier Ordóñez biðja lögreglumennina sem handtóku hann um að hætta að halda honum í jörðinni og sagðist hann vera að kafna.

Ordóñez er sagður hafa verið handtekinn fyrir að hafa brotið gegn reglum um samkomubann í Kólumbíu, þar sem sat að sumbli með vinum sínum. Eftir handtökuna var hann færður á lögreglustöð áður en honum var komið á spítala, þar sem hann lést.

Meðferð lögreglunnar á Ordóñez hefur vakið mikla reiði og hefur fólk þyrpst út á götur höfuðborgarinnar til að mótmæla.

Sjö hafa látíst í mótmælunum, en breska ríkisútvarpið hefur eftir Carlos Holmes Trujillo, varnarmálaráðherra Kólumbíu, að fimm þeirra hefðu verið skotin til bana. Þá sagði hann verðlaun í boði fyrir þau sem gætu stigið fram með upplýsingar sem leiddu til handtöku þeirra sem frömdu morðin. Hann sagði einnig að 1.600 lögreglumenn yrðu sendir til Bogotá annars staðar frá til þess að bregðast við ófriðinum.

Claudia López, borgarstjóri Bogotá, segir þá að minnst 248 borgarar hefðu særst í mótmælunum. Þar af hefðu 58 orðið fyrir skoti. Yfir 100 lögreglumenn hefðu þá einnig slasast.

Hundruð mótmælenda tókust í dag á við lögregluna fyrir utan lögreglustöðina sem Ordóñez var færður á í kjölfar handtöku hans. Alls var ráðist að 40 lögreglustöðvum í borginni og 17 brenndar niður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.