Fótbolti

Sout­hgate þarf enn að svara fyrir at­burðina á Ís­landi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Southgate á hliðarlínunni í gær.
Southgate á hliðarlínunni í gær. vísir/getty

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að Phil Foden og Mason Greenwood hafi fengið það sem þeir áttu skilið eftir hótelheimsóknina á Íslandi en segir að nú þurfi þeir stuðning.

Foden og Greenwood fengu eins og flestir vita, heimsókn frá tveimur íslenskum stelpum upp á hótelherbergi þeirra á Hótel Sögu er þeir voru á Íslandi með enska landsliðinu. Voru þeir umsvifalaust sendir heim til Englands.

Enska landsliðið gerði markalaust jafntefli við Danmörku í gær og leikmennirnir tveir voru þar af leiðandi ekki í leikmannahópnum. Gareth Southgate var spurður út í stöðuna á Foden og Greenwood eftir leikinn.

„Það hafa verið afleiðingar og nú þurfa þeir stuðning. Allir eru að sækja að þeim. Þeir þurfa hjálp við að byggja sig aftur upp,“ sagði Southgate í samtali við Sky Sports eftir jafnteflið í gær.

„Þeir þurfa að skilja kröfurnar að vera leikmaður Englands. Við verðum að hjálpa þeim í því ferli. Við þurfum að byggja upp traust og þú verður að hjálpa ungu fólki aftur á lappirnar.“

„Ég hef talað við þá báða, og eins og ég sagði í gær þá vita þeir að það sem gerðist var óafsakanlegt, bæði vegna Covid og einnig á öllum öðrum stigum. Sama hvað, þá hefðu þeir verið sendir heim.“

Næsta verkefni Englands er í október en hann vildi ekki svara til um hvort að þeir yrðu valdir í það verkefni.

„Ég mun taka ákvörðun um það. Það þarf að byggja upp traust fyrst. Hugarfar mitt er ekki að særa þessa drengi enn meira. Þeir eru að fara í gegnum þetta með fjölskyldu og vinum og ég þarf ekki að bæta við það,“ sagði Southgate.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×