Innlent

Jón Baldvin ákærður fyrir kynferðisbrot

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Baldvin Hannibalsson mætir í Silfrið vegna ásakana kvenna um að hann hafi beitt þær kynnferðisofbeldi
Jón Baldvin Hannibalsson mætir í Silfrið vegna ásakana kvenna um að hann hafi beitt þær kynnferðisofbeldi Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart konu sem var gestkomandi á heimili hans á Spáni í júní 2018.

Frá þessu greinir Jón Baldvin í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og segi að samkvæmt ákæru sé sakarefnið að hafa „strokið utan klæða upp og niður eftir rassi“ viðkomandi konu.

Jón Baldvin hafnar sakarefninu með öllu í greininni og segir málið hreinan uppspuna. Um það hafi „trúverðug vitni vottað við rannsókn málsins,“ eins Jón Baldvin segir í grein sinni.

Konan sem um ræðir heitir Carmen Jóhannsdóttir. Hún steig fram og sagði frá sinni reynslu af Jóni Baldvini í viðtali við Stundina í janúar í fyrra. Þá neitaði Jón Baldvin einnig öllu en Carmen kærði hann til lögreglu í mars sama ár.

Í grein sinni segir Jón Baldvin vitnisburð móður Carmenar um það sem eigi að hafa gerst á heimili hans umræddan dag „ótrúverðugri en ella vegna þess að hún hefur áður reynst verða tvísaga í sambærilegu máli, en hún var æskuvinkona Aldísar á Ísafjarðarárum. Hún bar á sínum tíma til baka fullyrðingar Aldísar um, að hún hefði orðið fyrir áreitni af minni hálfu. Við það slitnaði upp úr vinskapnum þar til nú, að þær hafa sæst á ný.“

Jón Baldvin var skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 1970 til 1979 og Aldís er dóttir hans og Bryndísar Schram.

Aldís hefur lengi fullyrt að faðir hennar hafi brotið kynferðislega gegn fjölda kvenna sem og henni sjálfri. Fjölskylda hennar hefur aftur á móti haldið því fram að hún sé veik á geði og því skuli ekki taka frásagnir hennar trúanlegar.

Í grein sinni í Morgunblaðinu segir Jón Baldvin að ákæran sé síðasta útspilið í skipulagðri aðför að mannorði sínu og Bryndísar sem hafi bráðum staðið yfir í tuttugu ár. Greinir Jón Baldvin svo frá því í lok greinar sinnar að Bryndís hafi skrifað bók um fjölskylduharmleik þeirra sem settur sé í samhengi við þjóðfélagslegan veruleika. Bókin komi út á næstu dögum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×