Erlent

Ekkert lát á mót­mælum í Hvíta-Rúss­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur í miðborg Minsk í gær halda uppi hvítum og rauðum fána stjórnarandstöðunnar.
Mótmælendur í miðborg Minsk í gær halda uppi hvítum og rauðum fána stjórnarandstöðunnar. EPA-EFE/STRINGER

Þúsundir hafa safnast saman í miðborg Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, í dag til að mótmæla setu Alexanders Lúkasjenkó forseta á valdastóli. Óeirðalögreglan hefur lokað hluta borgarinnar með vatnsdælum og tálmum, tugir hafa verið handteknir og einhverjir slasast.

Aðgerðir óeirðalögreglunnar hafa færst í aukana í dag og hefur hún reynt að stöðva flæði mótmælenda inn í miðborgina í dag. Þá hefur fjöldi mótmælenda verið handtekinn að sögn fréttaritara breska ríkisútvarpsins á svæðinu.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá straum mótmælenda í miðborg Minsk í dag. Margir hverjir halda á hvítum og rauðum fána, gömlum þjóðfána Hvíta-Rússlands, sem er nú orðin einkennisfáni stjórnarandstöðunnar. 

Þá hafa öryggissveitir, sem eru klæddir svörtu frá toppi til táa og hylja andlit sín, beint spjótum sínum að háskólanemum sem hafa snúið aftur til borgarinnar undanfarna daga eftir sumarfrí. Háskólanemar hafa verið dregnir upp í ómerkta lögreglubíla af götunum og úr háskólabyggingum.

Fjórir hafa látið lífið frá því að mótmæli hófust þann 9. ágúst síðastliðinn, daginn sem forsetakosningar fóru fram. Hundruð hafa slasast og fjöldi fólks hefur greint frá því að hafa verið pyntað í haldi lögreglu.

Mótmælendur og meðlimir stjórnarandstöðunnar segja forsetann hafa svindlað í kosningunum en hann hlaut rúm 80 prósent atkvæða á meðan helsti andstæðingur hans, Svetlana Tikhanovskaya, hlaut um 10 prósent atkvæða. Hún flúði land daginn eftir kosningarnar og heldur nú til í Litháen ásamt börnum sínum.

Þá hafa fleiri meðlimir stjórnarandstöðunnar flúið land en á laugardag flúði aðgerðasinninn Olga Kovalkova til Póllands og segist hún hafa flúið vegna hótana um að hún yrði fangelsuð.


Tengdar fréttir

Segja að það hafi verið svindlað í kosningunum

Kosningastarfsfólk í Hvíta-Rússlandi segir að svindlað hafi verið í forsetakosningunum fyrr í mánuðinum. Hundruð þúsunda hafa mótmælt Alexander Lúkasjenko forseta síðustu vikur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×