Íslenski boltinn

Njarðvík blandar sér í toppbaráttuna eftir góðan sigur á Þrótti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael Nikulásson er þjálfair Njarðvíkur.
Mikael Nikulásson er þjálfair Njarðvíkur. Stöð 2/Skjáskot

Njarðvík vann frábæran 3-2 útisigur á lærisveinum Hermanns Hreiðarssonar í Þrótti Vogum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur 3-2 Njarðvíkingum í vil sem eru svo sannarlega að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar.

Júlíus Óli Stefánsson kom heimamönnum yfir undir lok fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 fyrir Þrótti þegar liðin gengu til búningsherbergja. Síðari hálfleikurinn var algjör markasúpa en Kenneth Hogg jafnaði metin fyrir gestina á 64. mínútu og Marcus McAusland kom þeim yfir aðeins fimm mínútum síðar.

Hubert Rafal Kotus jafnaði metin fyrir heimamenn en Hogg skoraði sigurmarkið á 78. mínútu og þar við sat.

Sigurinn þýðir að Njarðvík er nú í 4. sæti deildarinnar með 24 stig, líkt og Haukar sem eru sæti ofar en eiga leik til góða. Þá er Selfoss með 25 stig í 2. sæti en þeir eiga einnig leik til góða á Njarðvík.

Þróttur Vogum er svo í 5. sæti með 22 stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×