Innlent

Spá um 10 prósenta at­vinnu­leysi um ára­mót: „Þetta er þungt haust“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Egill

Tilkynnt var um eina hópuppsögn til viðbótar í dag hjá ferðaþjónustufyrirtæki, þar sem tuttugu var sagt upp, að sögn forstjóra Vinnumálastofnunar. Um 285 manns hafi misst vinnuna í dag í hópuppsögnum en öllum starfsmönnum Herjólfs og um helmingi starfsmanna fríhafnarinnar sem og fleiri starfsmönnum ferðaþjónustufyrirtækja var sagt upp í dag.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að gefin hafi verið út spá um þróun atvinnuleysis hér á landi í júlí. „Þar gerum við ráð fyrir að verði um þrjú þúsund að meðaltali á mánuði fram að áramótum [sem missa vinnuna] og að atvinnuleysi geti verið komið yfir tíu prósent, rúmlega, 10,3% um áramót,“ segir Unnur. „Það telur þá 22 þúsund manns.“

Hún telur að eins og staðan er í dag muni spáin ganga eftir. „Þetta er þungt haust, það sjá það allir í hendi sér.“

Hagstofa Íslands tilkynnti í morgun um mesta samdrátt sem mælst hefur frá upphafi mælinga.

Þá sagði Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við fréttastofu að hann teldi að um jól verði allt að þrjátíu þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Staðan sé mjög þung, sérstaklega hjá ferðaþjónustufyrirtækjum, en eins og áður segir var nokkur hundruð manns sagt upp störfum í dag eða fengu ekki endurráðningu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×